Fara í efni
Íþróttir

Fjölnir fór með stigin af Þórsvelli – MYNDIR

Mættu því óvænta, segir í auglýsingu VÍS, tryggingafélagsins sem Þórsvöllurinn er nú kenndur við. Hvað sem því líður er alltaf erfitt að tapa og Fannar Daði Malmquist Gíslason, leikmaður Þórs, var mjög vonsvikinn eftir að flautað var til leiksloka í kvöld. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þór tapaði 1:0 gegn Fjölni í 15. umferð Lengjudeildar karla á VÍS-Vellinum (Þórsvelli) nú í kvöld. Guðmundur Karl Guðmundsson skoraði eina mark leiksins þegar aðeins um fimm mínútur voru eftir að venjulegum leiktíma.

Þetta var annað 1:0 tap Þórs í röð en liðið tapaði gegn Leikni á laugardaginn var þar sem markið var skorað í lokin. Eins og í leiknum gegn Leikni á laugardaginn var spilamennskan heilt yfir góð en á meðan liðið nýtir ekki færin þá er alltaf möguleiki á að fá svekkjandi mark á sig í lokin þegar leikirnir eru jafnir.

Eftir leikinn er Þórsliðið nú í 8. sæti deildarinnar en er samt sem áður einungis þremur stigum fyrir ofan Njarðvík sem situr í fallsæti þegar sjö umferðir eru eftir af mótinu. Næsti leikur Þórsliðsins er föstudaginn 11. ágúst þegar liðið sækir Ægismenn heim.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna úr leiknum.

Smelltu hér til að sjá stöðuna í deildinni.

_ _ _

STERK BYRJUN HEIMAMANNA – FANNAR Í FÆRUM

Þórsliðið byrjaði leikinn virkilega vel og fengu nokkur góð færi til að komast yfir snemma leiks. Fannar Daði Gíslason fékk gott færi eftir um 40 sekúndna leik. Heimamenn pressuðu Fjölnismenn hátt á vellinum og unnu boltann. Fannar fékk skotfæri í teignum en skot hans var varið af Sigurjóni Daða Harðarsyni í marki Fjölnis. Þremur mínútum síðar átti Fannar skalla að marki úr miðjum teignum eftir fyrirgjöf frá Birgi Ómari Hlynssyni en aftur varði Sigurjón vel.

_ _ _

MEIÐSLAVANDRÆÐI HALDA ÁFRAM - BIRGIR ÓMAR HLYNSSON MEIÐIST

Þórsarar hafa verið óheppnir með meiðsli á tímabilinu, sérstaklega í stöðu bakvarðar. Ýmir Már Geirsson og Elmar Þór Jónsson eru á meiðslalistanum og á 18. mínútu meiddist Birgir Ómar Hlynsson. Birgir hefur verið að spila vel í stöðu hægri bakvarðar í síðustu leikjum. Nikola Kristinn Stojanovic sem vanalega spilar á miðjunni kom inn í hans stað og leysti Birgi af hólmi.

_ _ _

INGIMAR FELLDUR – GULT SPJALD NIÐURSTAÐAN

Á 28. mínútu varð umdeilt atvik þegar Ingimar Arnar Kristjánsson var við það að sleppa í gegn við miðlínu. Hann var felldur af Vilhjálmi Yngva Hjálmarssyni og aukaspyrna réttilega dæmd. Heimamenn vildu fá rautt spjald en eftir langar samræður gaf Helgi Mikael Jónasson Vilhjálmi gula spjaldið.

Þegar atvikið er skoðað aftur sést að þetta var réttur dómur. Vissulega var Ingimar við það að sleppa í gegn en hann hafði ekki stjórn á boltanum og enn þá var töluvert í markið og því erfitt að segja að um upplagt marktækifæri hafi verið um að ræða.

_ _ _

JAFNRÆÐI MEÐ LIÐUNUM – FJÖLNISMENN Í FÆRI

Eftir góða byrjun heimamanna varð meira jafnræði með liðunum. Þórsarar fengu fleiri færi en Fjölnismenn áttu sína sénsa einnig. Á 43. mínútu fékk Axel Freyr Harðarson fínt færi. Þórsliðið var þá í miklum vandræðum með að koma boltanum út úr eigin vítateig sem endaði með því að Axel náði skoti við vítateigslínuna en sem betur fer fyrir heimamenn fór boltinn fram hjá markinu.

_ _ _

RÓLEGUR SEINNI HÁLFLEIKUR - HEIMAMENN MEIRA Í FÆRUNUM

Seinni hálfleikurinn bauð ekki upp á mikið af opnum færum. Heimamenn áttu þau nokkra sénsa sem hefði verið hægt að nýta betur. Þegar um tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik fékk Marc Sörensen færi utarlega í teignum eftir fínt spil heimamanna. Sigurjón var þá fljótur út úr markinu og lokaði vel á Danann. 

_ _ _

GÓÐUR SPRETTUR HJÁ KRISTÓFER EN SKOTIÐ YFIR MARKIÐ

Á 72. mínútu átti Kristófer Kristjánsson góðan sprett upp völlinn. Hann fékk boltann á eigin vallarhelmingi og keyrði upp hægri kantinn. Hann komst svo að teignum þar sem hann keyrði inn að miðju og átti skot með vinstri fæti rétt utan vítateigs. Skotið var ekki nægilega gott og fór fram hjá markinu.

_ _ _

0:1 - GUÐMUNDUR KARL TRYGGIR FJÖLNISMÖNNUM SIGURINN

Það stefndi allt í markalaust jafntefli en á 85. mínútu skoraði Guðmundur Karl Guðmundsson eina mark leiksins. Miðvörður Fjölnis átti þá langa sendingu úr vörninni upp hægri kantinn þar sem Máni Austmann Hilmarsson kom á miklum spretti og náði til boltans. Máni komst inn í teiginn hægra megin og renndi boltanum út í miðjan teig þar sem Guðmundur var aleinn og renndi boltanum í netið.