Fara í efni
Íþróttir

Enn unnu Tryggvi og félagar Evrópuleik

Tryggvi Snær í baráttunni í kvöld í Novgorod í Rússlandi.
Tryggvi Snær í baráttunni í kvöld í Novgorod í Rússlandi.

Tryggvi Snær Hlinason og félagar í Casademont Zaragoza frá Spáni unnu í kvöld lið Nizhny Novgorod í Meistaradeild Evrópu í körfubolta í framlengdum leik, 98:92. Leikið var á heimavelli rússneska liðsins í Novgorod, þeim sögufræga stað, sem kallaður var Hólmgarður á víkingöld og er einn merkasti sögustaður Rússlands.

Zaragoza hefur þar með unnið fjóra af fyrstu fimm leikjum D-riðils Meistaradeildarinnar. Tryggvi lék í rúmar 15 mínútur, skoraði 10 stig, náði þremur fráköstum, varði þrjú skot og átti eina stoðsendingu.

Zaragoza er eftir leikinn sem fyrr í efsta sæti D-riðils keppninnar, með fjóra sigra og eitt tap það sem af er tímabili. Liðinu hefur gengið illa í spænsku deildinni en þess ber að geta að Meistaradeildin er ekki, þrátt fyrir nafnið, sterkasta Evrópukeppnin. Euroleague er sú besta, þar sem meðal annars Real Madrid, Barcelona, Baskonia og Valencia, öll frá Spáni, taka þátt. Fyrirkomulag Evrópumótanna er flókið; einkafyrirtækið Euroleague Basketball stofnaði nýja Evrópudeild um aldamótin og hafði betur í baráttunni við FIBA, alþjóða körfuboltasambandið, sem réð lögum og lofum í evrópskum körfubolta lengi vel. Fyrir nokkrum árum stofnaði FIBA Meistaradeildina, en bestu liðin taka eftir sem áður þátt í Eurolague.