Fara í efni
Íþróttir

Ekkert annað en sigur kemur til greina

Leikmenn KA/Þórs og þjálfarar á Akureyrarflugvelli í dag fyrir brottför til Eyja. Ljósmynd: Skapti H…
Leikmenn KA/Þórs og þjálfarar á Akureyrarflugvelli í dag fyrir brottför til Eyja. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Úr því fæst skorið í kvöld hvort deildarmeistarar kvenna í handbolta, Stelpurnar okkar í KA/Þór, haldi í vonina um að bæta Íslandsmeistaratitlinum við. KA/Þór mætir ÍBV í Eyjum í kvöld, þetta er annar leikur liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins, tvo sigra þarf til að komast áfram og Eyjamenn sigruðu í KA-heimilinu um helgina, 27:26.

„Það var mjög svekkjandi að tapa, ekki síst vegna þess að við byrjuðum svakalega vel og mér finnst við í rauninni flottar fyrir utan hikst á smá kafla í seinni hálfleik,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir í samtali við Akureyri.net í dag. Rut hefur verið einn albesti leikmaður deildarinnar í vetur.

Eyjamenn höfðu sérstakar gætur á Rut í leiknum í KA-heimilinu, og skyldi svo sem engan undra. „Ég veit ekki hvort það var stress eða hvað en þegar ein okkar var tekin svona út úr sóknarleiknum varð flæðið ekki eins gott. Við höfum lent í þessu áður í vetur og getað leyst það, en í þetta skipti kom smá hikst í sóknina, maður hafði á tilfinningunni að liðið væri sennilega ekki að spila vel en þegar leikurinn er skoðaður aftur sér maður að liðið spilaði nokkuð vel. Við komumst í fínustu færi en markvörður þeirra varði reyndar vel.“

Mjög vel undirbúnar

„Við erum aðeins búin að skerpa á ýmsum smátriðum sem við viljum gera betur í dag. Við höfum farið vel yfir þeirra leik – bæði vörn og sókn, vorum reyndar mjög vel undirbúnar síðast en ég vona að við séum enn betur undirbúnar núna.“

Hún segir að sjálfsögðu hafa verið sárt að tapa um helgina á heimavelli. „Við vorum vissulega mjög svekktar strax eftir leik, en svo fórum við strax að einbeita okkur að leiknum í kvöld. Við höfum bara hugsað um þennan leik sem framundan er; við ætlum að vinna hann og komast í þriðja leikinn. Það er klárt markmið.“

  • Leikurinn hefst klukkan 18.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Rut Jónsdóttir á Akureyrarflugvelli í dag - til í slaginn í Eyjum.