Fara í efni
Íþróttir

„Einn skemmtilegasti og flottasti dúettinn“

Ivan Aurrecoechea og Dedrick Basile. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.
Ivan Aurrecoechea og Dedrick Basile. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Dedrick Basile og Ivan Aurrecoechea fóru á kostum með Þór í sigri á Val á sunnudaginn í Domino‘s deildinni í körfubolta. Þeir hafa raunar báðir leikið mjög vel undanfarið og fjölluðu sérfræðingarnir í Domino‘s körfubolti á Stöð 2 Sport sérstaklega um þá félaga í síðasta þætti.

„Dedrick Basile er leikmaður sem fer vaxandi með hverjum leiknum og hann var stórkostlegur á móti Val,“ hefur Vísir eftir Kjartani Atla Kjartanssyni, umsjónarmanni Domino´s Körfuboltakvölds.

Bandaríkjamaðurinn, bakvörðurinn Dedrick Basile, skoraði 28 stig í leiknum, var með níu stoðsendingar, átta fráköst og „stal“ boltanum fjórum sinnum.

„Þetta eru rosalegar tölur og svo er hann með stóra manninn með sér í Ivan,“ sagði Teitur Örlygsson, sérfræðingur Körfuboltakvölds.

Spænski miðherjinn Aurrecoechea var með 29 stig og 15 fráköst í sigrinum á Val og hefur verið með tvennu í öllum sex leikjum sínum á tímabilinu. „Það eru kannski stór orð en mér finnst þetta vera einn skemmtilegasti og flottasti dúettinn í deildinni. Þeir eru alltaf góðir,“ sagði Teitur.

Smellið hér til að sjá umfjöllunina í þættinum.