Dregur til tíðinda á grænu torfunum

Nú er farið að síga á seinni hlutann hjá Akureyrarliðunum í fótboltanum. Þrjár umferðir eru eftir af Bestu deild karla í knattspyrnu fyrir tvískiptingu, fimm umferðir af Bestu deild kvenna fyrir tvískiptingu og fjórum umferðum er ólokið í Lengjudeild karla áður en það ræðst hvaða lið fer upp og hvaða lið fara í umspil.
Fram undan eru knattspyrnuleikir meistaraflokksliðanna á fimmtudag, laugardag og sunnudag.
FIMMTUDAGUR 21. ÁGÚST - fótbolti
Þór/KA hefur gengið brösuglega að ná sér í stig eftir EM-hléið. Nú er komið að heimaleik gegn nágrönnunum úr austri, FHL. Austfirðingar náðu sér í sín fyrstu stig í deildinni í sumar með sigri á Fram á heimavelli í síðustu umferð. Þór/KA sótti FH heim í Hafnarfjörðinn og tapaði þrátt fyrir að hafa skorað þrjú mörk, lokatölur 5-3 FH í vil.
Fyrir leik liðanna á fimmtudag er Þór/KA í 5. sætinu með 18 stig, en liðið missti Val upp fyrir sig í síðustu umferð. Fram undan hjá Þór/KA er barátta við að halda sér í efri hlutanum, en í 6. og 7. sæti deildarinnar eru Fram og Stjarnan með 15 stig. FHL þarf auðvitað einnig á stigunum að halda, reyndar öllum stigum sem í boði eru, því liðið er 11 stigum á eftir Tindastóli sem situr í 8. sæti deildarinnar.
- Besta deild kvenna í knattspyrnu, 14. umferð
Boginn kl. 18
Þór/KA - FHL
Fyrri leikur Þórs/KA og FHL sem fram fór í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði snemma í maí endaði með 5-2 sigri Þórs/KA. Sandra María Jessen skoraði þrennu í þeim leik og þær Sonja Björg Sigurðardóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir eitt mark hvor.
LAUGARDAGUR 23. ÁGÚST - fótbolti
Búast má við fjölmenni og mikilli stemningu í Boganum á laugardag þegar toppliðin tvö í Lengjudeildinni, Þór og Njarðvík, mætast í 19. umferð Lengjudeildar karla. Topplið Njarðvíkur tapaði heima fyrir Þrótti í 18. umferðinni, en Þór vann ÍR á útivelli og minnkaði muninn niður í eitt stig.
Lokaspretturinn í deildinni verður því æsispennandi. Nú eru 12 stig í pottinum og sex lið sem eiga enn möguleika á að fara beint upp eða ná 2.-5. sæti og fara þar með í umspil um sæti í efstu deild.
- Lengjudeild karla í knattspyrnu, 19. umferð
Boginn kl. 16
Þór - Njarðvík
Njarðvík vann fyrri leik þessara liða á heimavelli um miðjan júní, 3-1.
Leikir sem efstu liðin eiga eftir, að 19. umferðinni meðtalinni:
- Njarðvík 37 stig: Þór (ú), Leiknir (h), Keflavík (ú), Grindavík (h)
- Þór 36 stig: Njarðvík (h), Selfoss (ú), Fjölnir (h), Þróttur (ú)
- Þróttur 35 stig: Selfoss (h), Fjölnir (ú), HK (ú), Þór (h)
- ÍR 33 stig: Leiknir (ú), Keflavík (h), Grindavík (ú), Fylkir (h)
- HK 31 stig: Fjölnir (ú), Fylkir (h), Þróttur (h), Völsungur (ú)
- Keflavík 28 stig: Völsungur (h), ÍR (ú), Njarðvík (h), Selfoss (ú)
SUNNUDAGUR 24. ÁGÚST - fótbolti
Enn er spenna í baráttu liðanna í neðri hluta Bestu deildar karla um að halda sæti sínu í deildinni og sum eiga reyndar einnig möguleika á að koma sér upp í efri hlutann fyrir tvískiptingu. FH og ÍBV unnu bæði sína leiki í 19. umferðinni og þegar þetta er skrifað og birt á mánudegi eiga KR-ingar möguleika á að þoka sér upp um tvö sæti því þeir mæta Fram í lokaleik 18. umferðarinnar í kvöld.
- Besta deild karla í knattspyrnu, 20. umferð
Greifavöllurinn kl. 17
KA - Fram
Að loknum 19 leikjum er KA í 9. sæti með 23 stig, tveimur stigum á undan Aftureldingu sem situr í 10. sætinu og þremur á undan KR sem er í 11. sæti en á leikinn gegn Fram í kvöld til góða.
KA vann fyrri viðureignina gegn Fram í lok maí, 2-1. Ásgeiri Sigurgeirsson og Jóan Símun Edmundsson skoruðu mörk KA í leiknum.