Fara í efni
Íþróttir

Dómari hjá Þór/KA brýtur enn blað

Stéphanie Frappart á Þórsvellinum í október 2013, fyrir miðju þeirra svartklæddu. Arna Sif Ásgrímsdó…
Stéphanie Frappart á Þórsvellinum í október 2013, fyrir miðju þeirra svartklæddu. Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA, lengst til vinstri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Stéphanie Frappart frá Frakklandi skrifaði merkilegan kafla í knattspyrnusöguna í vikunni, þegar hún varð fyrsta konan til að dæma leik í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í karlaflokki.

Svo skemmtilega vill til að Frappart hefur dæmt á Akureyri. Hún var með flautuna þegar Þór/KA tapaði 2:1 fyrir Zorkij frá Rússlandi í 32-liða úrslitum Meistaradeildarinnar, miðvikudaginn 9. október 2013. Hún telst því „Akureyrarvinur“ skv. hefðbundinni skilgreiningu Íslendinga!

Það var á miðvikudaginn sem Frappart dæmdi leik Juventus og Dynamo Kiev, sem Juve vann 3:0, og þótti hún standa sig afar vel.

Frappart var líka fyrsta konan, og sú eina til þessa, til að dæma úrslitaleik í karlaflokki á vegum UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu. Hún dæmdi leik Evrópumeistara Liverpool og Evrópudeildarmeistara Chelsea um ofurbikar Evrópu í Istanbul, haustið 2019.