Fara í efni
Íþróttir

Bjarni Guðjón valinn í landslið 21 árs og yngri

Bjarni Guðjón Brynjólfsson er 19 ára en kominn í landsliðshóp 21 árs og yngri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarinn Bjarni Guðjón Brynjólfsson hefur verið valinn í landsliðshóp 21 árs og yngri í knattspyrnu fyrir vináttuleik gegn Finnlandi  ytra og fyrsta leik liðsins í riðlakeppni EM 2025, gegn Tékklandi á Víkingsvelli 12. september.

Davíð Snorri Jónasson landsliðsþjálfari tilkynnti leikmannahópinn í morgun. Bjarni er 19 ára og einn sjö leikmanna í hópnum sem fæddir eru árið 2004. Aðrir eru eldri. Alls eru 26 leikmenn í hópnum.

Bjarni Guðjón á að baki 11 leiki með U19 landsliðinu, þá síðustu í lokakeppni EM í sumar, og er nú valinn í fyrsta sinn í U21 landsliðið.

Annar Þórsari er í landsliðshópnum, Jakob Franz Pálsson sem er á mála hjá ítalska félaginu Venezia en leikur í sumar sem lánsmaður með KR. Jakob Franz er tvítugur og á að baki 23 leiki með yngri landsliðum Íslands, þar af fjóra með U21 liðinu.

Smellið hér til að sjá allan landsliðshópinn