Fara í efni
Íþróttir

Bensínið á þrotum um miðjan seinni hálfleik

Isabella Fraga, sem var spræk lengi vel í leiknum, gerir eitt þriggja marka sinna í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kvennalið KA/Þórs í handbolta missti niður góða stöðu og tapaði fyrir ÍR á heimavelli í kvöld, 22:19, í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, Olís deildinni.

Stelpurnar okkar fara því í langt HM- og jólafrí með með fimm stig að 10 leikjum loknum. Liðið er í 6. sæti og leikur ekki næst fyrr en 6. janúar, gegn Stjörnunni í Garðabæ.

Fyrri hálfleikur var í rólegri kantinum og í jafnvægi lengi vel en KA/Þór sigldi hægt og rólega fram úr gestunum í seinni hlutanum og í hálfleik var staðan 11:8 fyrir KA/Þór.

KA/Þór hóf seinni hálfleikinn af krafti og náði fimm marka forystu þegar tæplega 10 mínútur voru liðnar, 14:9. En veður skipuðust skjótt í lofti; þjálfari ÍR tók leikhlé og að því loknu gerði liðið þrjú mörk í röð og þegar hálfleikurinn var hálfnaður voru ÍR-ingar búnir að jafna, 15:15. Það sem eftir lifði leiks gerði KA/Þór einungis fjögur mörk og ÍR-ingar fögnuðu dýrmætum sigri.

Stelpurnar okkar voru í kjörstöðu framan af fyrri hálfleik en svo small allt í baklás í sókninni. Það var hreinlega eins og bensíntankurinn hefði tæmst nokkru áður en komið var á leiðarenda.

Mörk KA/Þórs: Lydía Gunnþórsdóttir 5 (3 víti), Isabella Fraga 3, Nathalia Soares Baliana 3 (1 víti),Telma Lísa Elmarsdóttir 2, Rakel Sara Elvarsdóttir 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1, Aþena Einvarðsdóttir 1, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 1, Rafaele Nascimento Fraga 1.

Varin skot: Matea Lonac 15 (40,5%).

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina