Fara í efni
Íþróttir

Aron Ingi gerði tvö mörk og Þórsarar nældu í stig

Aron Ingi Magnússon, sem hér er á fleygiferð með boltann fyrr í sumar, gerði bæði mörk Þórs á Selfossi í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór og Selfoss skildu jöfn í dag, 2:2, í Lengjudeildinni - næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikið var á Selfossi. Það var Aron Ingi Magnússon sem gerði bæði mörk Þórs, fyrsta og síðasta mark leiksins.

Aron Ingi braut ísinn á 34. mín. Kristófer Kristjánsson fékk boltann rétt aftan við miðju, lék fram og sendi á Alexander Þorláksson sem renndi boltanum út á vinstri kant á Aron Inga, hann lék inn í teig og skoraði með laglegu skoti.

Guðmundur Tyrfingsson jafnaði fyrir Selfoss á 59. mín. Hann skallaði að marki eftir hornspyrnu, Aron Birkir markvörður Þórs hafði hönd á boltanum en aðstoðardómarinn lyfti flaggi sínu umsvifalaust til merkis um að boltinn hefði farið inn fyrir línuna.

Það var Adrian Sanchez sem náði forystu fyrir heimamenn á 83. mín. Eftir að Selfyssingur skaut í þverslá björguðu Þórsarar í horn og þegar boltinn kom fyrir markið frá hornfánanum var Sanchez illa valdaður í markteignum og skoraði auðveldlega með skalla.

Útlitið var ekki orðið gott fyrir Þórsara en þeir lögðu ekki árar í bát og staðan var orðin jöfn á ný rúmlega þremur og hálfri mínútu eftir að heimamenn gerðu seinna markið. Vilhelm Ottó Biering Ottósson, vinstri bakvörður, fékk boltann fram völlinn, lék upp að vítateig og sendi inn á hann miðjan þar sem Ingimar Arnar Kristjánsson var með varnarmann fyrir aftan sig en náði valdi á boltanum og renndi honum út í teig. Þar var Aron Ingi aleinn og þrumaði í netið.

Efsta lið deildarinnar vinnur sér sæti í Bestu deildinni að ári en næstu fjögur fara í umspil um annað laust sæti. 

Afturelding er efst með 40 stig og ÍA hefur 37.

Nokkur lið berjast svo um þriðja, fjórða og fimmta sæti til að komast í umspil. Þór er í sjötta sæti með 24 stig, Leiknir er í fimmta sæti með 25, Vestri í fjórða sæti með 27 og Fjölnir er í þriðja sæti með 30 stig. Flest liða eiga fjóra leiki eftir og því 12 stig í pottinum fyrir þau.

Þetta eru leikirnir sem Þór á eftir áður en umspil fjögurra liða hefst:

  • Þór - Njarðvík – föstudag 25. ágúst 17.00
  • Þór - ÍA – laugardag 2. september 14.00
  • Grótta - Þór – laugardag 9. september 17.00
  • Þór - Grindavík – laugardaginn 16. september 14.00

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna