Fara í efni
Íþróttir

Arnór Þór fyrirliði landsliðsins!

Arnór Þór Gunnarsson á æfingu landsliðsins í Víkingsheimilinu áður en liðið hélt til Portúgals, þar …
Arnór Þór Gunnarsson á æfingu landsliðsins í Víkingsheimilinu áður en liðið hélt til Portúgals, þar sem það mætir heimamönnum í kvöld. Ljósmynd: Ívar Benediktsson.

Arnór Þór Gunnarsson verður að öllum líkindum fyrirliði Íslands á heimsmeistaramótinu í handbolta í Egyptalandi, sem hefst um miðjan mánuðinn. Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari, tilkynnti leikmönnum í það minnsta þá ákvörðun sína á fundi rétt í þessu að Arnór Þór verði fyrirliði í kvöld, þegar Ísland mætir Portúgal á útivelli í undankeppni EM. Akureyringurinn verður þá í fyrsta skipti í fararbroddi þegar liðið gengur inn á völlinn. Seinni EM-leikurinn við Portúgal verður á Ásvöllum í Hafnarfirði á sunnudaginn.

Það er ekki algengt að bræður séu landsliðsfyrirliðar samtímis – kannski einsdæmi í heiminum, hver veit – en bróðir Arnórs Þórs, Aron Einar, hefur sem kunnugt er verið fyrirliði landsliðs Íslands í knattspyrnu mörg síðustu ár. Það er óneitanlega skemmtilegt að tveir Þórsarar og Þorparar skuli gegna þessum virðingarhlutverkum samtímis.

Arnór Þór lék sinn fyrsta landsleik fyrir Íslands hönd 11. janúar 2008 í Þrándheimi gegn Ungverjum. Hann hefur leikið 114 landsleiki og skorað í þeim 332 mörk, HM í Egyptalandi verður hans áttunda stórmót fyrir Ísland.

Leikurinn við Portúgal hefst kl. 19:30 og verður í beinni útsendingu á RÚV.

Aron Pálmarsson tók við fyrirliðabandinu eftir að Guðjón Valur Sigurðsson lagði skóna á hilluna, en Aron meiddist á dögunum og verður ekki með landsliðinu í næstu verkefnum.

Arnór Þór, til hægri, og Aron Einar, Gunnarssynir eftir sigur á Portúgal á EM í handbolta í Svíþjóð janúar í fyrra. Bjarki Már Elísson er á milli þeirra. Aron „skaust“ þá frá Katar til að sjá bróður sinn í einum leik.