Fara í efni
Íþróttir

Annar sigur Þórs á Leikni í vikunni - MYNDIR

Birgir Ómar Hlynsson í baráttunni við Daníel Finns Matthíasson. Þórsarar fögnuðu öðrum sigri sínum á Leikni í vikunni í dag. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

Þór vann 1:0 heimasigur gegn Leikni Reykjavík í þriðju umferð Lengjudeildar karla, næst efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu, í dag. Valdimar Daði Sævarsson gerði eina mark leiksins.

Þorlákur Árnason þjálfari liðsins gerði sex breytingar á byrjunarliði Þórs sem sigraði Leiknismenn í bikarnum á þriðjudaginn var. Aron Birkir kom inn í markið. Akseli, Ýmir og Ragnar Óli inn í vörnina. Ion Perello og Marc Sörensen komu svo inn á miðsvæðið.

Leiknismenn gerðu einnig breytingar á sínu liði frá bikarleiknum og komu sterkir leikmenn eins og Omar Sowe og Kaj Leó í Bartalstovu inn í byrjunarlið þeirra.

Nokkuð mikill vindur var á annað markið allan leikinn og spiluðu heimamenn með vindi í fyrri hálfleik.

_ _ _

1:0

Á 10. mínútu leiksins kom fyrsta markið og var það Valdimar Daði Sævarsson sem gerði það. Bjarni Guðjón sendi þá boltann upp á miðjuna þar sem Brynjar Hlöðvers miðvörður Leiknis var mættur og ætlaði að ná til boltans. Valdimar náði hins vegar að komast á undan í boltann og var sloppinn einn gegn Viktori í markinu. Valdimar tók skot sem Viktor varði en hann náði að fylgja á eftir og koma boltanum yfir línuna. Verðskuldað mark en Þórsarar höfðu verið sterkari aðilinn í upphafi leiks.

_ _ _

Eftir markið varð meira jafnræði með liðunum, Leiknismenn unnu sig inn í leikinn eftir því sem leið á hálfleikinn og ógnuðu meira en Þórsarar. Aðal sóknarþungi gestanna kom úr föstum leikatriðum þar sem Aron Birkir var alltaf klár að grípa inn í. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik og staðan 1:0 heimamönnum í vil eftir 45 mínútur.

Mjölnismenn hafa komið með skemmtilega stemmingu á Þórsvöllinn í sumar. Þeir voru fjölmennir í stúkunni í dag.  Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson

_ _ _

Leiknismenn voru mun sterkari aðilinn í upphafi seinni hálfleiks og sóttu með vindi á mark Þórsara. Omar Sowe fékk besta færi Leiknis á 64. mínútu. Leikmenn Þórs náðu þá ekki að hreinsa boltann úr teignum. Omar vann boltann, lék á Akseli og átti skot af 10 metra færi sem honum tókst á einhvern hátt að setja fram hjá markinu.

Aðeins mínútu seinna var Omar búinn að setja boltann í netið en var þá dæmdur rangstæður. Þórsarar hreinlega heppnir að vera ekki búnir að fá á sig jöfnunarmark á þessum tímapunkti.

Þegar líða tók á seinni hálfleik unnu heimamenn sig aftur inn í leikinn og náðu oft á tíðum góðum skyndisóknum. Valdimar og Ingimar Arnar voru öflugir og Leiknismenn áttu oft í erfiðleikum með hraðann þeirra. 

Ingimar Arnar Kristjánsson hefur komið vel inn í Þórsliðið í ár. Varnarmenn Leiknis áttu í erfiðleikum með hann í dag. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

_ _ _

Undir lok leiks reyndu Leiknismenn hvað þeir gátu til að jafna en eins og í fyrri hálfleik var aðal ógn þeirra undir lokin úr föstum leikatriðum. Aron Birkir Stefánsson sem lék vel í dag var þá öruggur sem fyrr og greip oft vel inn í. Fleiri mörk voru ekki skoruð og heimamenn fögnuðu sætum 1:0 sigri.

Eftir leikinn eru Þórsarar með sex stig og hafa þeir unnið alla heimaleiki sína, í deild og í bikar. Það er mikilvægt fyrir liðið að sá árangur haldi áfram. Þorlákur Árnason þjálfari liðsins getur einnig verið ánægður með að liðið hélt hreinu þrátt fyrir sóknarþunga Leiknis í stórum hluta seinni hálfleiks. 

Þórsliðið hefur farið vel af stað í sumar og unnið alla heimaleiki sína hingað til.