Fara í efni
Íþróttir

Annar leikur Þórs og ÍR í Höllinni í kvöld

Þórsarinn Jason Gigliotti ver skot frá ÍR-ingnum Colin Pryer í deildarleik liðanna á Akureyri fyrr í vetur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Annar leikur Þórsara og ÍR-inga í undanúrslitum 1. deildar karla í körfubolta verður í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld kl. 19.15. ÍR vann fyrsta leikinn á heimavelli sínum í vikunni.

Vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslitaeinvígi um sæti í efstu deild næsta vetur þar sem andstæðingurinn verður annað hvort Fjölnir eða Sindri.

Þórsarar sigruðu Skallagrímsmenn úr Borgarnesi í síðustu umferð. ÍR-ingar eru sterkari á pappírnum, enda urðu þeir í öðru sæti deildarinnar, og sigurinn á Þór var öruggur í fyrsta leiknum. Fróðlegt verður að sjá hvort Þórsarar ná að jafna metin í kvöld; þeir hafa oft sýnt magnaða frammistöðu á heimavelli og nái allir lykilmenn sér á strik ætti liðið að geta veitt hvaða andstæðingi í þessari deild verðuga keppni.

Heimaleikir Þórsara hafa farið fram á laugardagskvöldum undanfarið og það hefur reynst góð ákvörðun. Fjölmenni hefur mætt og stemningin verið góð í húsinu. Í kvöld verður hægt að slá tvær flugur í einu höggi sem fyrr, snæða kvöldverð og horfa á leikinn því grillaðir hamborgarar verða til sölu frá klukkan 18.00.