Fara í efni
Íþróttir

Andstæðingur rekinn út af og Þór tapaði

Alvaro Montejo, framherji Þórs, og Ísak Atli Kristjánsson, leikmaður Aftureldingar - sem fékk rautt á Þórsvellinum á dögunum. Þá unnu Þórsarar, enda var Ísak rekinn af velli á lokamínútunum, en gengur annars með ólíkindum illa þegar þeir eru fleiri á vellinum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þór tapaði fyrir ÍBV í kvöld, 2:1, í síðasta leik 6. umferðar næstu efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu, Lengjudeildarinnar. Þar með fóru Eyjamenn upp í fimmta sæti með 10 stig en Þórsarar eru með sjö stig í áttunda sæti.

Einn mótherja Þórsara var rekinn af velli í dag, þegar tæpur hálftími var eftir og staðan jöfn, en enn einu sinni lentu Þórsarar í vandræðum einum fleiri. Það er hreinlega rannsóknarefni hvers vegna það hefur ítrekað gerst í gegnum tíðina. Nýlegt dæmi er að í síðasta leik misstu Víkingar í Ólafsvík tvo menn af velli en náðu samt að jafna.

Þórsarar byrjuðu reyndar mjög vel í kvöld og léku afbragðs vel í fyrri hálfleik. ÍBV skoraði þó á undan, þvert gegn gangi leiksins, þegar Stefán Sigurðarson skallaði í markið eftir aukaspyrnu, en Jóhann Helgi Hannesson jafnaði eftir hálftíma leik með góðu skoti eftir flotta sókn Þórsara. Skömmu áður hafði Jakob Snær Árnason átt þrumuskot í stöng.

Framherjar Þórs, Alvaro Montejo og Jóhann Helgi Hannesson, fengu að finna hressilega fyrir mótherjunum, dómarinn sýndi þeim lítinn skilning framan af en svo fór gula spjaldið fjórum sinnum á loft handa Eyjamönnum – í öll skiptin eftir brot á Alvaro. Þar af fékk Nökkvi Már Nökkvason tvisvar að sjá gula spjaldið og þar með rautt, á 65. mínútu.

Þórsarar náðu ekki að nýta sér liðsmuninn sem fyrr segir, en voru reyndar ekki langt frá því. Orri Sigurjónsson átti skot í stöng þegar rúmar 10 mínútur voru eftir og Þórsliðið sótti stíft. Eyjamenn fengu hins vegar vítaspyrnu á 88. mínútu, vegna bakhrindingar í teignum, en Guðjón Pétur Lýðsson þrumaði hátt og langt yfir markið frá vítapunktinum!

Einhverjir hafa án efa andað léttir og talið að eitt stig hið minnsta væri í höfn, en það var ekki svo gott. Aðdragandi sigurmarksins var reyndar sá að Þórsarar voru í góðri sókn; skot úr aukaspyrnu fór rétt framhjá, en strax eftir að Eyjamenn byrjuðu með boltann brunuðu þeir fram, Seku Conneh átti frábæra sendingu fyrir markið og Guðjón Ernir Hafsteinsson, sem var við fjærstöngina, skallaði í netið.

Þannig fór um flugferð þá ...

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna.