Fara í efni
Íþróttir

Alvaro kvaddi með þrennu í Grafarvogi

Alvaro fagnar einu þriggja marka dagsins ásamt Fannari Daða Malmquist og Ásgeiri Marinó Baldvinssyni. Ljósmynd: fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð.

Þórsarar unnu Fjölnismenn 3:0 í Grafarvogi síðdegis, í Lengjudeildinni, næstu efst deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Spænski framherjinn Alvaro Montejo Calleja gerði sér lítið fyrir og skoraði þrjú mörk í kveðjuleik sínum með Þór, og var reyndar aðeins hársbreidd frá því að gera fjögur; hann þrumaði í stöng úr víti í fyrri hálfleik.

  • 1:0 á 6. mínútu – Alvaro komst skyndilega á auðan sjó hægra megin í teignum eftir sendingu Ásgeirs Marinós Baldvinssonar og skoraði af öryggi með föstu skoti.
  • 13. mínúta – Þórsarar fá víti þegar brotið er á Vigni Snæ Stefánssyni. Alvaro tók spyrnuna en skaut í stöng, boltinn hrökk til Sigurðar Marinós en hann skot hans fór yfir markið.
  • 2:0 á 31. mínútu – Glæsileg skyndisókn; Sigurður Marinó fékk boltann aftarlega á vellinum, lék fram og sendi á Alvaro, sem sneri af sér varnarmann og kom boltanum framhjá markverðinum.
  • 3:0 á 93. mínútu – Þórsarar náðu skyndisókn á næst síðustu mínútu leiksins. Jóhann Helgi Hannesson sendi frá hægri kanti yfir til vinstri þar sem Alvaro lék á Sigurjón markvörð Fjölnis og skoraði örugglega.

Alvaro var himinlifandi að leikslokum en þó sorgmæddur samtímis. „Þetta er mjög tilfinningaþrungin stund,“ sagði Spánverjinn við útsendara Akureyri.net eftir leikinn á Extra velli Fjölnis. Þetta er áttunda keppnistímabil Alvaros á Íslandi og það fjórða með Þór. Hann fer heim til Spánar á morgun og leikur þar í vetur.

Með sigrinum stökkva Þórsarar úr 10. sæti upp í miðja deild.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna.

Síðasta mark Alvaros Montejo fyrir Þór – það 47. í deild og bikar – á síðustu andartökum leiksins í dag. Hann fékk sendingu frá Jóhanni Helga Hannssyni (númer 9, lengst til hægri), lék á Sigurjón Daða Harðarson markvörð og renndi boltanum í netið. Kunnugleg uppskrift! Ljósmyndir: Alma Skaptadóttir.

Leikmenn 2. flokks Þórs, sem eru í keppnisferð í borginni, studdu vel við bakið á sínum mönnum í dag, fögnuðu þeim vel að leikslokum og kvöddu Alvaro með virktum. Ljósmynd: Alma Skaptadóttir.

Fjórir glaðbeittir eftir sigurinn í dag. Hermann Helgi Rúnarsson, Birgir Ómar Hlynsson, Alvaro Montejo og Sigurður Marinó Kristjánsson, fyrirliði. Ljósmynd: Alma Skaptadóttir.