Fara í efni
Íþróttir

„Algjör hneisa – við förum með málið lengra“

Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir, tveir af bestu leikmönnum KA/Þórs. Ljósmyndir: Þórir Tryggvason.

Forráðamenn kvennaliðs KA/Þórs í handbolta höfðu ekki hugmynd um að áfrýjunardómstóll HSÍ hefði til meðferðar mál vegna leiks liðsins gegn Stjörnunni, fyrr en þeim barst sú niðurstaða dómsins í gær að leikurinn þyrfti að fara fram aftur.

KA/Þór vann leik liðanna í Olís deild Íslandsmótsins í Garðabæ í febrúar, 27:26, en vegna mistaka á ritaraborði var einu marki of mikið skráð á Akureyrarliðið.

Stjarnan lagði fram kæru en dómstóll HSÍ hafnaði á sínum tíma kröfum Garðbæinga um að úrslitum leiksins yrði breytt eða leikurinn endurtekinn.

„Það ótrúlega í þessu máli er að hvorki skrifstofa HSÍ né áfrýjunardómstóll HSÍ létu okkur vita að málinu hefði verið áfrýjað. Málið var því tekið fyrir án þess að við hefðum hugmynd um það, Stjarnan skilar inn greinargerð til áfrýjunardómstólsins en við ekki eins og gefur að skilja, vegna þess að við höfðum ekki hugmynd um að málið væri í gangi. Erum við þó sannarlega aðili að málinu!“ sagði Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, við Akureyri.net.

„Þetta er ótrúlegt klúður og í raun algjör hneisa. Allar reglur í réttarfarsríki eru brotnar. Þetta er mál sem KA/Þór fer með lengra; við munum í fyrsta lagi óska eftir endurupptöku málsins hjá áfrýjunardómstóli HSÍ, gætum farið til áfrýjunardómstóls ÍSÍ og höfum velt því fyrir okkur að fara jafnvel með málið fyrir almennan dómstól vegna þess hvernig málið er unnið,“ sagði Sævar.

Smelltu hér til að lesa fréttina frá því í morgun um niðurstöðu áfrýjunardómstóls HSÍ.

Smelltu hér til að lesa frétt um niðurstöðu dómstóls HSÍ á sínum tíma.

Smelltu hér til að lesa úrskurð áfrýjunardómstóls frá því í gær.