Fara í efni
Íþróttir

Alfreð í fámennan hóp afreksþjálfara

Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þýskalands í handbolta, bættist í dag í fámennan hóp afreksþjálfara, þegar þýska liðið tryggði sér sæti á Ólympíuleikunum í Japan, þegar liðið sigraði í undanriðli sem fram fór í Berlín.

KA-goðsögnin Alfreð er aðeins fimmti þjálfarinn sem hefur náð að afreka hvort tveggja, að stýra félagsliði til sigurs í Meistaradeild Evrópu og koma landsliði inn á Ólympíuleika sem aðalþjálfari.

Danski handboltamaðurinn Rasmus Boysen, einn virkasti handboltatístarinn um þessar mundir, hélt þessu fram á Twitter í dag og ekki virðist ástæða til að rengja það eftir dálítið grúsk í handboltasögunni.

Magdeburg sigraði í Meistaradeild Evrópu undir stjórn Alfreðs 2002 og hann stýrði Kiel að Evrópumeistaratitli í tvígang, 2010 og 2012.

Hinir fjórir eru þessir:

  • Javier Garcia Cuesta, Spánverji sem þjálfaði landslið þjóðar sinnar á Ólympíuleikunum 1992 og lið Teka Santander þegar það varð Evrópumeistari 1994.
  • Valero Rivera López, Spánverji sem þjálfaði lið Barcelona í 20 ár; 1983 til 2003, og varð Evrópumeistari 1991, 1996, 1997, 1998, 1999 og 2000. Hann var landsliðsþjálfari Spánar á Ólympíuleikunum 2008 og 2012 og stýrði Katar á Ólympíuleikunum 2016.
  • Talant Dujshebaev, sem fæddist í Sovétríkjunum en varð seinna Spánverji; Ciudad Real varð Evrópumeistari undir hans stjórn 2006, 2008 og 2009 og hann stýrði Póllandi á Ólympíuleikunum 2016.
  • Roberto Garcia Parrondo frá Spáni; RK Vardar frá Makedóníu varð Evrópumeistari 2019 og hann þjálfar nú Egypta, sem hafa tryggt sér sæti á Ólympíuleikunum í Japan í sumar.