Fara í efni
Íþróttir

Handboltapersóna ársins í Þýskalandi

Al­freð Gísla­son, þjálf­ari þýska karla­landsliðsins í hand­bolta, var á dögunum kjörinn handboltapersóna ársins í Þýskalandi 2021; Handball-Persönlichkeit. Þýska handboltaverðlaunahátíðin, Die German Handball Awards, eins og Þjóðverjar kalla hana, var þá haldin í fyrsta skipti og verðlaun veitt í 14 flokkum.

Það voru tveir þýskir handboltafjölmiðlar sem tóku sig saman og stofnuðu til verðlaunanna. Kosning stóð yfir á netinu allan janúarmánuð og alls tóku um 200.000 manns þátt. Verðlaunahátíðin var svo í þriggja tíma beinni útsendingu á netsjónvarpsstöðinni Sportdeutschland.tv. Sem dæmi má nefna að Johannes Golla úr Flensburg-Handewitt var valinn leikmaður ársins í karlaflokki og Alina Grijseels, Dortmund, í kvennaflokki. Magdeburg var kjörið lið ársins, en með því leika  landsliðsmennirnir Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson.

Stórbrotinn ferill

Alfreð varð bikarmeistari með KR 1982 og Vestur-Þýskalandsmeistari með TUSEM Essen 1986 og 1987. Hann kom síðan heim og tók við þjálfun síns gamla félags, KA, auk þess að leika með liðinu og undir stjórn Alfreðs varð KA bikarmeistari 1995 og 1996 og Íslandsmeistari 1997.

Ferill Alfreðs sem þjálfara eftir að hann hóf störf í Þýskalandi á ný 1997 hefur verið stórkoslegur. Lið hans urðu sjö sinnum Þýskalandsmeistarar, Magdeburg einu sinni og THW Kiel sex sinnum. Bikarmeistaratitlarnir urðu sex og þrívegis stýrði Alfreð liði til sigurs í Meistaradeildinni; fyrst Magdeburg 2002 og síðan Kiel 2010 og 2012. Alfreð hætti störfum hjá Kiel 2019 og tók við þjálfun þýska landsliðsins 2020.

Ólaf­ur Stef­áns­son, einn besti handboltamaður sögunnar og leikmaður Al­freðs hjá landsliðinu og Mag­deburg, lofsöng fyrr­ver­andi læri­föður sinn á hátíðinni. „Ég vil nota tækifærið og þakka þér persónulega fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig,“ sagði Ólafur; fyrir að hafa tekist, sagði hann, með ástríðu, góðu viðhorfi og færni sem þjálfari, að taka við honum sem góðum leikmanni og gert að frábærum leikmanni.

Ég vinn fyrir leikmennina

Þegar Alfreð var beðinn um að bregðast við hrósi Ólafs svaraði hann hógvær: „Mér þykir vænt um að hann segi þetta. En þetta er einungis hægt ef leikmaður hefur rétt hugarfar og er tilbúinn að leggja á sig mikla vinnu. Menn verða að hafa líkamsstyrk, hæfileika og mikinn vilja.“ 

Margir fyrrverandi lærisveinar Alfreðs hafa mært hann í gegnum tíðina og honum finnst „auðvitað gott“ að heyra það, en segist líta svo á að hann sé að vinna fyrir leikmennina en ekki öfugt. „Ég gleðst þegar leikmönnum mínum gengur vel, það er ánægjulegt að sjá þá verða betri leikmenn. Nú er ég kominn á þann aldur að fyrrverandi leikmenn mínir eru orðnir farsælir þjálfarar, og það gleður mig sérstaklega mikið,“ sagði Alfreð í samtali við þáttastjórnandann á Sportdeutschland.tv.

  • Myndin: Alfreð ræðir við þáttarstjórnandann á Sportdeutschland.tv þegar hann var heiðraður.