Fara í efni
Íþróttir

Alex Máni Sveinsson semur við aðallið ÖHF

Alex Máni Sveinsson þreytti frumraun sína með aðalliði Örnsköldsvik Hockey Association í nóvember og hefur nú gert tveggja tímabila samning við félagið eftir að hafa verið einn af lykilmönnum 20 ára liðsins á tímabilinu.

Akureyringurinn, landsliðsmaðurinn og fyrrum leikmaður Skautafélags Akureyrar, Alex Máni Sveinsson, hefur gert tveggja tímabila samning við sænska félagið Örnsköldsvik Hockey Association (ÖHF), en hann hefur leikið með 20 ára liði félagsins á þessu tímabili. Frá þessu er sagt á vef Íshokkísambands Íslands. Þar kemur einnig fram að Alex Máni eigi ekki langt að sækja skautaáhugann. Langafi hans var Gunnar Thorarensen, heiðursfélagi í Skautafélagi Akureyrar, en hann þýddi leikreglur í íshokkí fyrstur manna yfir á íslensku. 

Stefndi að þessu frá þriggja ára aldri

Alex Máni varð í haust aðeins annar Íslendingurinn frá félagi á Íslandi til að spila leik í HockeyEttan, þriðju efstu deild í Svíþjóð á eftir Allsvenskan. Á þetta benti móðir hans, Heiðrún Ósk Steindórsdóttir, í Facebook-pistli á sínum tíma þar sem hún sagði meðal annars að frá þriggja ára aldri hafi hann stefnt á þetta og loksins sé komið að uppskerunni sem hann eigi svo sannarlega skilið. Og nú heldur uppskeran áfrma að skila sér.


Skjáskot af Instagram-síðu ÖHF frá því í haust þegar Alex Máni þreytti frumraun sína með aðalliði félagsins.

Alex Máni varð fljótt einn af lykilmönnum með 20 ára liði ÖHF á tímabilinu og spilaði í kjölfarið nokkra leiki með aðalliði félagsins þar sem hann þótti standa sig frábærlega, sem skilaði því að hann hefur nú gert tveggja tímabila samning við aðallið ÖHF. Fyrir utan tvo sænsk-íslenska leikmenn er Alex Máni fyrsti Íslendingurinn sem alinn er upp innan félags hér á landi til að gera tveggja tímabila samning í næstefstu deildinni í Svíþjóð sem nefnist HockeyEttan.


Penninn á lofti og tímamótasamningur hjá Alex Mána Sveinssyni. 

Í deildakeppninni í Svíþjóð er 14 liða atvinnumannadeild, Elitserien (SHL), og síðan Allsvenskan þar sem einnig eru 14 atvinnumannalið. Þar á eftir kemur svæðaskipt deild, Hockeyettan með 40 liðum. ÖHF spilar í norðurriðli deildarinnar ásamt níu öðrum liðum. Liðið hefur átt frekar þungt tímabil að því er fram kemur í frétt ÍHÍ og komst ekki í úrslitakeppnina, en samningurinn við Alex Mána er liður í því að styrkja sig fyrir komandi tímabil. 

Alex Máni undirbýr sig nú fyrir verkefni með karlalandsliði Íslands sem fer til Serbíu í síðari hluta aprílmánaðar og spilar þar fimm leiki í deild í Heimsmeistaramóti IIHF.