Fara í efni
Íþróttir

Akureyrarmót hófst í dásemdarveðri

Leikmenn í meistaraflokki á níundu flöt í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Veðrið leikur áfram við Eyfirðinga og gesti þeirra. Meistaramót Golfklúbbs Akureyrar hófst í dag í glampandi sól og logni. Blíðan hefur verið nánast lygileg síðustu viku, í dag fór hitinn eitthvað upp fyrir 20 stig og áfram verður hlýtt en reyndar sólarlítið á morgun og föstudag. Þessu árlega, fjögurra daga móti lýkur hins vegar í sól á laugardaginn, ef að líkum lætur.

Lárus Ingi Antonsson, klúbbmeistarinn á síðasta ári, er í efsta sæti í meistaraflokki karla eftir fyrsta dag, lék á 71 höggi. Ævarr Freyr Birgisson lék á 73, Mikael Máni Sigurðsson er á 74 höggum og Tumi Hrafn Kúld, Akureyrarmeistari 2018, er fjórði á 75 höggum. Meistarinn 2019, Örvar Samúelsson, er í áttunda sæti á 80 höggum.

Stefanía Kristín Valgeirsdóttir er í efsta sæti í meistaraflokki kvenna, lék á 79 höggum í dag. Ólöf María Einarsdóttir er önnur á 81 höggi og Kara Líf Antonsdóttir þriðja á 86. Meistarann frá því í fyrra, Andrea Ýr Ásmundsdóttir, ver ekki titilinn því hún leikur þessa dagana með landsliðinu á Evrópumeistaramótinu í liðakeppni í Portúgal.

Konur í meistaraflokki á níundu flöt í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.