Fara í efni
Íþróttir

Akureyrarblær á úrslitarimmunni

Sigtryggur og Andri Már Rúnarssynir úti að hlaupa á Akureyri fyrir nokkrum árum þegar Siddi lék í Þýskalandi og Andri með Stjörnunni. Þórsbuff og Þórshúfa segja sína sögu þó hvorugur hafi þarna verið að spila fyrir Þór.

Handboltabræðurnir Sigtryggur og Andri Rúnarssynir eiga eftir að valda foreldrum, öfum og ömmum og öðrum ættingjum höfuðverk næstu daga þegar ÍBV og Haukar mætast í úrslitarimmu um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta. Þeir spila nefnilega hvor með sínu liðinu í þessari rimmu, Sigtryggur Daði með ÍBV og Andri Már með Haukum.

Með hverjum eiga afinn og amman á Akureyri, Bolli og Hulda Björg, að halda? Eða foreldrarnir, Rúnar Sigtryggsson og Heiða Erlingsdóttir? Ættin getur í það minnsta treyst á og sætt sig við að nú er klárt að annar Rúnarssonurinn verður Íslandsmeistari. Hinn verður það hins vegar ekki.

Fyrsti úrslitaleikur liðanna verður í Vestmannaeyjum í dag og hefst klukkan 13.00.

Fleiri Akureyringar

Það er reyndar enn frekari akureyrskur blær á þessari rimmu því í báðum liðum eru fyrrum leikmenn með Akureyri handboltafélagi, annar uppalinn í Þór og hinn í KA. Þetta eru Geir Guðmundsson í Haukum og Róbert Sigurðarson í ÍBV. Róbert var um tíma samningsbundinn Akureyri og síðan Þór, en á láni hjá ÍBV. Fagriskógur og KA eiga svo líka sinn fulltrúa í þessari rimmu því Magnús Stefánsson, aðstoðarþjálfari ÍBV, er uppalinn í KA og lék með Akureyri á sínum tíma. Hann mun síðan taka við sem aðalþjálfari ÍBV fyrir næstu leiktíð.

Rosalegt einvígi í vændum

„Það er held ég rosalegt einvígi í vændum. Tvö mjög góð lið sem eiga ríka sögu af spennandi einvígum í úrslitakeppni,“ segir stóri bróðir í einvíginu, Sigtryggur Rúnarsson, í samtali við Akureyri.net.

„Svo kryddar það einvígið töluvert að vera að fara að mæta litla bróðir sínum. Það er bæði ótrúlega skemmtilegt og skrítið á sama tíma. Maður heldur alltaf með bróður sínum en núna er maður að fara að reyna allt til að stoppa hann og fá honum til að ganga verr. Við erum nú vanir að keppa við hvorn annan í allskonar heima fyrir, en það er aðeins meira undir núna.“

Sigtryggur nefnir að einvígið verði þó sennilega „skrítnast fyrir fjölskylduna. Ég veit að mamma okkar og systir okkar eru að reyna að finna eitthvað hlutlaust svæði í stúkunni á laugardaginn og það er erfitt að giska á hvernig tilfinningar þeirra verða á meðan á þessu stendur.

En þetta verður geggjað, maður getur varla beðið eftir fyrsta leik og vonandi að við getum boðið fólki uppá alvöru einvígi!“

Lítil slagsmál áður – nú stór!

Andri Már er ekki síður fullur tilhlökkunar en Siddi stóri bróðir. „Það er fyrst og fremst geggjað að við séum mættir í úrslitin og klárlega staðurinn sem við viljum vera á. Síðasta rimma var skrautleg og gaman að hafa klárað hana og núna viljum við fara alla leið,“ segir Andri.

„Auðvitað er svo mjög gaman og á sama tíma skrítið að úrslitarimman sé á móti stóra bróður en ég held að við munum bara hafa mjög gaman að því. Kannski verður það erfiðara fyrir fjölskylduna,“ segir Andri og bætir við: „en það bara fínt að litlu slagsmálin þegar maður var yngri séu komin núna yfir í að berjast um Íslandsmeistaratitilinn!“

Leikdagar í úrslitaeinvíginu:

  • Laugardagur 23. maí í Eyjum
  • Þriðjudagur 23. maí í Hafnarfirði
  • Föstudagur 26. maí í Eyjum
  • Mánudagur 29. maí í Hafnarfirði (ef þarf)
  • Miðvikudagur 31. maí í Eyjum (ef þarf)


Næsti aðalþjálfari meistaraflokks karla í handbolta hjá ÍBV, Magnús Stefánsson. Mynd: ÍBV