Fara í efni
Íþróttir

Áfram Akureyri! Nú þarf að brýna raustina!

Áfram Akureyri! Nú þarf að brýna raustina!

Gærdagurinn var ekki dagur akureyrskra boltaliða; Þórsarar töpuðu á útivelli fyrir Þorlákshafnar-Þórsurum í úrslitakeppninni í körfubolta karla, KA/Þór tapaði heima fyrir ÍBV í undanúrslitum Íslandsmótsins í handbolta kvenna og KA tapaði fyrir Hamri í Hveragerði í úrslitum Íslandsmótsins í blaki karla.

Öll fá liðin okkar tækifæri til að rétta sinn hlut á miðvikudaginn og þá verður að duga eða drepast fyrir þau; tap gerir það að verkum að körfuboltaliðið og handboltaliðið verða úr leik, og tapi blakliðið verður Hamar Íslandsmeistari. Því er ástæða til að hvetja alla sem vettlingi geta valdið til að mæta á leikina og hvetja sína menn til dáða. Vitað mál er að ekkert er ómögulegt í íþróttum. Frá og með morgundeginum verða fleiri áhorfendur leyfðir en áður á íþróttaleikjum; skv. reglugerð heilbrigðisráðherra mega 300 manns vera í hverju sóttvarnarhólfi í stað 150 undanfarið.

Dagskráin á miðvikudag er þessi:

18.00 ÍBV - KA/Þór í handbolta kvenna, bein útsending á Stöð 2 Sport

18.15 Þór - Þór Þorlákshöfn í körfubolta karla, bein útsending á Stöð 2 Sport

19.15 KA - Hamar í blaki karla, beint útsending á KA TV

Mæðgurnar Kristín Hólm og Katrín Brynja voru í hópi áhorfenda í KA-heimilinu í gær þar sem KA/Þór og ÍBV áttust við, spennan var mikil og þær skemmtu sér hið besta, að minnsta kosti mamman. Sú litla, sem er fimm mánaða, kippti sér ekkert upp við lætin, enda vel útbúin!

Áfram Akureyri! Áfram Akureyringar – allir sem einn!