40 ár frá fimm mörkum Halldórs gegn FH

Þórsarar gleyma án efa seint gærdeginum, laugardeginum 13. september 2025, þegar knattspyrnulið félagsins tryggði sér sæti í efstu deild Íslandsmótsins, Bestu deildinni, eftir 11 ár í næst efstu deild. Þeir félagsmenn sem nú teljast til eldri kynslóða gleyma heldur örugglega aldrei laugardeginum 14. september árið 1985. Þá gerði Halldór Áskelsson fimm mörk í 6:1 sigri Þórs; í dag eru sem sagt nákvæmlega 40 ár síðan.
Leikur Þórs og FH var á Akureyrarvelli og liður í lokaumferð 1. deildar, eins og efsta deild Íslandsmótsins hét þá. Lið Þórs þetta sumar var eitt það besta í sögu félagsins og var í baráttu um Íslandsmeistaratitilinn allt þar til á lokasprettinum.
Markalaust jafntefli við Þrótt á útivelli í næst síðustu umferð varð á endanum til þess að Þór náði ekki sæti í Evrópukeppni árið eftir. Þór endaði í þriðja sæti, Valur varð meistari með 38 stig, ÍA fékk 36 og Þór 35. Fram varð í fjórða sæti með 34. Þrjú lið komust í Evrópukeppni; tvö efstu og Fram sem varð bikarmeistari. Skagamenn unnu Fram í lokaumferðinni í Reykjavík og skutust þar með upp í annað sætið.
Fjallað var um þennan söguleika í þættinum Gamla íþróttamyndin 2. nóvember á síðasta ári. Hér má sjá þá frétt:
Gamla íþróttamyndin: Fimm mörk Halldórs
Fimmta marki Halldórs fagnað. Á efri myndinni er Árni Jakob Stefánsson um það bil að hoppa hæð sína í fullum herklæðum, Halldór og Dýri Guðmundsson liggja á vellinum og hægri er FH-ingurinn Magnús Pálsson. Á neðri myndinn fagna þeir Halldóri, Siguróli Kristjánsson, Árni Jakob og Sigurður Pálsson.