Fara í efni
Fréttir

„Veislan“ framundan – leiðin merkt og hreinsuð

Nokkrir öflugir hlauparar og velunnarar utanvegahlaupsins 66° Norður Súlur Vertical vörðu gærdeginum í að laga og merkja miðhluta lengstu hlaupaleiðarinnar, sem er alls 55 km. Hópurinn tók með sér létt verkfæri og búnað og skokkaði í veðurblíðunni frá Súlubílastæðinu og inn að Lambáröxl.

Vinna gærdagsins er mikilvægur hluti undirbúningsins enda var m.a. verið að merkja hlaupaleiðina og hreinsa af henni grjót.

Keppnin fer fram 30. júlí og því aðeins tvær vikur til stefnu. Allt bendir til þess að hlaupið verði það stærsta frá upphafi og hápunktur verslunarmannahelgarinnar á Akureyri. Í fyrsta sinn verður krakkahlaup í Kjarnaskógi hluti af hlaupahátíðinni ásamt menningarskokki með leiðsögn um Akureyri, að því er segir í tilkynningu frá mótshöldurum.

Líkt og í fyrra er keppt í þremur vegalengdum: 18km, 28km og 55km ultra. Í öllum tilvikum er ræst í Kjarnaskógi og komið í mark í miðbæ Akureyrar. Í lengstu vegalengdinni er hækkunin um 3.000 metrar, þar sem hlaupið er meðal annars upp á bæjarfjöllin Súlur og Hlíðarfjall og um hinn ægifagra Glerárdal. „Hlaupaleiðin er einstaklega fjölbreytt en jafnframt er hún talin ein af mest krefjandi keppnisleiðum sem boðið er upp á í fjallahlaupum hér á landi,“ segir í tilkynningunni.

Krakkahlaup og menningarskokk

„Mikil áhersla er lögð á metnaðarfulla umgörð og ógleymanlega upplifun þátttakenda á öllum stigum. Jafnvel þótt keppnishlaupin séu í forgrunni þá verða að þessu sinni nýir hliðarviðburðir á dagskrá sem eiga að höfða til sem flestra. Á föstudeginum 29. júlí verður Krakkahlaup Súlur Vertical haldið í Kjarnaskógi þar sem 12 ára og yngri fá að spreyta sig í utanvegahlaupi við hæfi, njóta samveru með fjölskyldunni og þiggja léttar veitingar. Seinna sama dag býður Vilhjálmur Bergmann Bragason listamaður öllum sem vilja í létt menningarskokk með leiðsögn um Akureyri.“

Í fyrra var viðburðurinn haldinn í skugga Covid-19 en þrátt fyrir það hlupu á fjórða hundrað manns við frábærar aðstæður í fádæma veðurblíðu.

Skráning í Súlur Vertical 2022 er enn í fullum gangi og miðar vel. Hátt í 500 hlauparar hafa boðað komu sína og er reiknað með að þónokkrir bætist við á lokametrunum. Þar af leiðandi búa skipuleggjendur sig undir langstærsta Súlur Vertical viðburðinn frá upphafi. Vonast er til að sem flestir hlauparar og fjölskyldur þeirra heimsæki Akureyri um verslunarmannahelgina og njóti þess sem norðlensku fjöllin hafa upp á að bjóða, segir í tilkynningunni.

Hér má sjá nokkrar myndir frá því í gær.