Fjölmennasta 100 km hlaup á Íslandi

Um verslunarmannahelgina verður fjallahlaupið Súlur Vertical haldið í 10. skiptið. Viðburðurinn hefur vaxið mikið að umfangi frá fyrsta hlaupinu og metskráning er í hlaupið í ár. Enn er hægt að slást í hópinn og skrá sig til leiks en skráningarfrestur rennur út annað kvöld, föstudagskvöldið 25. júlí. Reyndar er búið að loka fyrir skráningu í 100 km hlaupið en engu að síður verður þetta fjölmennasta 100 km hlaup sem haldið hefur verið á Íslandi.
Á afmælisárinu var ákveðið að útvíkka Súlur Vertical viðburðinn og gera hann að þríleik. Auk fjallahlaupsins var keppt í skíðagöngu í vetur og í ágúst verður keppt í malarhjólreiðum. Þau sem ljúka keppni í öllum þremur greinunum fá sérstaka viðurkenningu.
Fyrsta hlaupið fór fram árið 2016 að frumkvæði Þorbergs Inga Jónssonar. Þá kepptu 15 keppendur í einni vegalengd. Í ár er keppt í fimm mismunandi vegalengdum, að krakkahlaupinu meðtöldu, og þó að skráningarfrestur sé ekki liðinn eru þegar vel yfir 500 þátttakendur skráðir til leiks, sem er metþátttaka. Í fyrra tóku um 480 manns þátt, sem þá var met.
Í ár verður í þriðja sinn boðið upp á 100 km langt fjallahlaup og 49 þátttakendur eru skráðir í það - sem gerir það að fjölmennasta 100 km hlaupi landsins. Að venju taka flestir þátt í 18 km vegalengdinni, skráningar þar eru komnar yfir 300. Allir keppendur byrja sitt hlaup í Kjarnaskógi, nema 100 km hlauparar sem leggja af stað frá Goðafossi, og allir ljúka sínu hlaupi í miðbæ Akureyrar þar sem myndast jafnan gríðarleg stemning við marksvæðið.
Skráning í hlaupið fer fram hér og er opin til miðnættis á annað kvöld. Skráning í krakkahlaupið, sem fram fer í Kjarnaskógi föstudaginn 1. ágúst, er þó opin til hádegis þann dag.