Fara í efni
Fréttir

Vatnsgufur að sögn „en þetta er ekki í boði“

Skemmtiferðaskipið Zuiderdam við Oddeyrarbryggju í dag. Myndin er tekin laust eftir hádegi en um tíma fyrr í dag lagði meiri og dekkri reyk frá skipinu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þykkan, gráan reyk lagði í dag úr skorsteini skemmtiferðaskipsins Zuiderdam sem lá við Oddeyrarbryggju. Megnrar óánægju gætir  augljóslega meðal  fjölda bæjarbúa vegna þessa miðað við skrif á samfélagsmiðlum og athugasemdir og fyrirspurnir sem borist hafa Akureyri.net. Mörgum blöskrar og sumum ofbýður hreinlega.

Reykinn lagði langt inn í Eyjafjarðarsveit í norðanáttinni og íbúar þar voru á meðal þeirra sem höfðu samband. Sjónmengunin er augljós en  formlega liggur ekki ljóst fyrir hvort í reyknum leynist annars konar mengun þótt marga gruni það greinilega.

Að sögn Péturs Ólafssonar hafnarstjóra fengust þær skýringar frá stjórnendum skipsins að um væri að ræða vatnsgufur sem þéttist mikið í kulda. Búnaður um borð í skipinu hreinsi um 98% útblásturs en vegna kuldans fyrri hluta dags hafi vatnsgufurnar verið mjög áberandi. Altjent er rétt að þegar hlýnaði eftir því sem leið á daginn dró úr sjónmenguninni.

Hvað sem öðru líður eru bæjaryfirvöld á Akureyri óánægð með gang mála, jafnvel þótt einungis væri um sjónmengun að ræða. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, er mjög ósátt og segist hafa komið athugasemdum á framfæri við hafnarstjórann. Athugasemdir hafi einnig verið settar fram við yfirmenn skipsins. „Við viljum ekki hafa þetta svona. Þetta er ekki í boði,“ segir hún við Akureyri.net.