Fara í efni
Fréttir

Vantar tugi milljóna svo VMA verði rekstrarhæfur

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri. Mynd af vef Byggiðnar.

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, segir skólann ekki rekstrarhæfan, fáist ekki aukið fjármagn. Skólann vanti 40 milljónir á þessu ári að óbreyttu og 60 á því næsta. „Ef við verðum áfram í þessari stöðu, sem við erum búin að vera allt þetta ár þá verður ekki hægt að versla inn á verklegar deildir í skólanum í janúar. Það er ekki af neinu að taka,“ segir Sigríður Huld í dag í viðtali á heimasíðu Byggiðnar, félags byggingamanna í Eyjafirði og höfuðborgarsvæðinu.

Í Kjarnanum birtist í gær grein eftir Unnar Þór Bachmann, framhaldsskólakennara þar sem hann fjallar um húsaleigugreiðslur framhaldsskóla á Íslandi. Hann bendir á að ríkið hafi hækkað leigu Verkmenntaskólans á Akureyri um 157% á einu bretti. „Það er erfitt að átta sig á því af hverju húsaleiga (markaðsleiga) Menntaskólans á Akureyri fer úr 111 milljónum árið 2018 í 189 milljónir (70%) árið 2019 en húsaleiga Verkmenntaskólans á Akureyri (VMA) úr 150 milljónum í 385 milljónir (157%)! Skýra markaðsaðstæður á Akureyri þennan mun?“ spyr Unnar.

Sleppum þakinu - betri loftun og minni mygla!

Helgi Valur Harðarson, brautarstjóri byggingadeildar VMA, gerir greinina að umtalsefni á Facebook í dag. Hann segir að nú blasi við að skera þurfi innkaup fyrir byggingadeild við nögl. „Ekkert mál, kennarar byggingadeildar VMA redda því með því að einfalda verkefni nemenda og margnýta efnið, við sleppum því bara að læra að setja þök á húsin. Það verður a.m.k. betri loftun og minni mygla eða hvað?“ Hann bætir við að oft sé talað um aukinn stuðning við iðnnám en spyr hvar efndirnar séu. „Væri gaman að sjá hann annars staðar en bara í orði.“

Sigríður Huld skólameistari segir á vef Byggðingar að aukin framlög til VMA á síðasta ári alfarið runnið í hærri húsaleigu. Staðreyndin sé sú að ekkert sé eftir þegar leiga og laun hafi verið greidd. Hún segir að það yrði samfélaginu á Norðurlandi afar þungbært ef skólinn, sem er stærsti framhaldsskólinn á landsbyggðinni, gæti ekki starfað lengur því atvinnulífið treysti á skólann og mikil eftirspurn sé eftir nemendum sem þar ljúki námi.

Nánar á heimasíðu Byggiðnar