Fara í efni
Fréttir

Valur Helgi og Guðrún Dóra til Heilsuverndar

Guðrún Dóra Clarke og Valur Helgi Kristinsson hafa verið ráðin til starfa hjá Heilsuvernd. Bæði koma þau frá Heilsugæslunni á Akureyri.
Heilsuvernd hefur tilkynnt um ráðningu tveggja lækna, Vals Helga Kristinssonar og Guðrúnar Dóru Clarke, sem bæði flytja sig frá Heilsugæslustöðinni á Akureyri yfir til Heilsuverndar. Valur Helgi hefur störf í janúar og Guðrún Dóra í mars. Valur Helgi og Guðrún Dóra eru bæði ráðin til starfa hjá Heilsuvernd til að vinna markvisst að áframhaldandi uppbyggingu í heilsugæslunni með áherslu á Akureyri. Ráðningarnar gefa vangaveltum um einkarekna heilsugæslustöð byr undir báða vængi.
 
Valur Helgi er sérfræðingur í heimilislækningum og stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri. Hann lauk embættisprófi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 2000 og stundaði sérnám í heimilislækningum á Húsavík og í Örebrö í Svíþjóð, sem hann lauk árið 2007. Hann hefur starfað hjá Heilsugæslunni á Akureyri frá 2009 og verið yfirlæknir þar frá 2021.
 
Guðrún Dóra er sérfræðingur í heimilislækningum, fædd og uppalin á Akureyri og stúdent frá MA. Hún lauk embættisprófi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 2004 og sérnámi í heimilislækningum árið 2011. Hún starfaði á Heilsugæslunni á Akureyri 2011-14 og aftur frá 2016 eftir að hafa starfað um tveggja ára skeið í Noregi. Hún hefur verið kennslustjóri sérnáms í heimilislækningum hjá HSN frá árinu 2020 og staðgengill yfirlæknis.
 
Um miðjan október flutti Akureyri.net fréttir af uppsögnum tveggja yfirlækna við Heilsugæslustöðina á Akureyri frá og með áramótum, sem sagt var að væri vegna skipulagsbreytinga og að fækka ætti yfirlæknum úr tveimur í einn. Jafnframt var ný staða yfirlæknis auglýst laus til umsóknar. Valur Helgi var annar þessara yfirlækna sem sagt var upp og kom fram í frétt á Akureyri.net 19. október að hann hygðist ekki sækja um hina nýju stöðu yfirlæknis hjá HSN. 
 
Á sama tíma komu fram upplýsingar um áhuga Heilsuverndar á að opna heilsugæslustöð á Akureyri sem um leið ýta undir vangaveltur um það hvort önnur heilsugæslustöðva framtíðarinnar á Akureyri verði einkarekin. Ráðning Vals Helga og Guðrúnar Dóru með áherslu á Akureyri gefur þeim vangaveltum væntanlega byr undir báða vængi.
 
  • Heilsuvernd hyggst opna heilsugæslustöð
HSN opnar nýja heilsugæslustöð í Sunnuhlíð um áramótin og flytur þar með alfarið úr miðbænum, en að auki eru áform um að byggja aðra heilsugæslustöð í norðvesturhorni tjaldsvæðisreitsins svokallaða og opna hana í ársbyrjun 2026.