Fara í efni
Fréttir

Athyglinni beint að sjúkraliðum í dag

Lilja Hrund Másdóttir og Lilja Sigurðardóttir ásamt hluta hóps sjúkraliða og sjúkraliðanema hjá HSN Húsavík. Mynd: HSN.

Evrópudagur sjúkraliða er í dag og beina bæði Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Sjúkrahúsið á Akureyri athyglinni að þessari mikilvægu heilbrigðisstétt. 

Samtals starfa 210 sjúkraliðar á þessum tveimur stofnunum, en ekki þó allir á Akureyri því HSN er með starfsemi um allt Norðurland. Á Sjúkrahúsinu á Akureyri starfa 111 sjúkraliðar og sjö sjúkraliðanemar, og 99 sjúkraliðar samanlagt á starfsstöðvum HSN. Á starfssvæði HSN eru nú 28 sjúkraliðar sem stunda grunnnám eða starfstengt nám til sjúkraliða á framhaldsstigi. Þá eru sex sjúkraliðar í diplómunámi til frekari sérhæfingar við Háskólann á Akureyri. Þetta kemur fram í pistli til heiðurs sjúkraliðum sem birtur er á vef HSN. Þar veita tveir sjúkraliðar á Húsavík innsýn í starfið. 

Þar er ómetanlegu starfi sjúkraliða gerð skil í eftirfarandi pistli: 

Í dag, á Evrópudegi sjúkraliða beinum við athyglinni að ómetanlegu starfi sjúkraliða, sem er eitt af grunnstoðum í heilbrigðiskerfinu okkar. Hjá HSN starfa núna nákvæmlega 99 sjúkraliðar. Við þökkum þeim fyrir hlýjuna, fagmennskuna og umhyggjuna sem þeir sýna alla daga. Þá viljum einnig beina ljósinu að metnaðarfullu starfsfólki í aðhlynningu hjá HSN sem vinnur samhliða sjúkraliðum, en það er sérstaklega ánægjulegt að töluvert stór hópur þeirra stundar núna nám til sjúkraliðaréttinda, samhliða starfi sínu.

Á starfssvæði HSN eru núna 28 einstaklingar sem stunda grunnnám eða starfstengt nám til sjúkraliða á framhaldsskólastigi. Auk þess eru 6 sjúkraliðar í diplómunámi til frekari sérhæfingar við Háskólann á Akureyri. Við erum einstaklega heppin að búa svona vel að öflugu og metnaðarfullu starfsfólki.

Sjúkraliðabrú - starfstengt nám til sjúkraliðaréttinda

Þær Lilja Sigurðardóttir og Lilja Hrund Másdóttir verðandi sjúkraliðar á Húsavík veittu okkur innsýn inn í námið Sjúkraliðabrú sem reynslumiklu starfsfólki í aðhlynningu á HSN gefst kostur á að sækja. Á Húsavík eru nú starfandi 25 sjúkraliðar og að auki 18 sjúkraliðanemar; 11 stunda nám í Sjúkraliðabrú við Framhaldskólann á Húsavík og 7 í sjúkraliðanámi við Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra.

„Símenntunarstöðvar í samstarfi við HSN buðu reyndu starfsfólki í aðhlynningu upp á raunfærnimat á sjúkraliðabraut vorið 2024 til að meta faglega stöðu okkar og sjá hvernig við gætum eflst og þróast í starfi. Við vorum nokkuð margar sem þáðum þetta tækifæri hér á Húsavík og við ákváðum í kjölfarið að hefja nám samhliða starfi í svokallaðri Sjúkraliðabrú. Flestar okkar munu útskrifast sem sjúkraliðar á næsta ári, þannig að hópur sjúkraliða er að stækka sem er mjög ánægjulegt.“

Allt önnur sýn á starfið og faglega sterkari

„Við byrjuðum báðar sem ófaglærðar í sjúkraliðastörfum, en við erum báðar menntaðar félagsliðar og höfum nær alla okkar starfsævi unnið við umönnun. Við vorum komnar með mikla reynslu og ekki endilega vissar um að sjúkraliðanám myndi bæta miklu við. En raunfærnimatið sýndi okkur hvar við stóðum faglega og það hvatti okkur til að stíga skrefið. Síðan hefur auðvitað komið í ljós að við höfum lært ótrúlega mikið og vaxið bæði persónulega og í starfi.“

Þær nöfnur og stöllur, Lilja og Lilja upplifa sig faglega sterkari eftir námið. „Námið hefur gefið okkur mikið og opnað okkur nýja sýn á starfið. Við fáum tækifæri til að læra meira af samstarfsfólki, taka þátt í fleiri verkefnum og finnum fyrir auknu sjálfstrausti og frumkvæði. Við erum líka meira og minna allar vinkonur hérna og í náminu og förum í gegnum þetta saman, sem gerir námið skemmtilegra og styrkir okkur sem hóp.“

Til hamingju, kæru sjúkraliðar með daginn!

Myndin hér að neðan var birt á vef Sjúkrahússins á Akureyri í tilefni dagsins með eftirfarandi kveðju:

 

„Sjúkraliðar leggja daglega sitt að mörkum til að tryggja öryggi og vellíðan sjúklinga. Þeim ber að þakka fyrir þeirra fagmennsku, hlýju og ómetanlega starf, ekki aðeins í dag, heldur alla daga ársins.

Innilega til hamingju með daginn, sjúkraliðar!