Fara í efni
Fréttir

Unnið úr meira hráefni en nokkru sinni

Starfsmenn í fiskvinnslu Samherja á Dalvík. Mynd af vef Samherja.

Tæpt ár er síðan vinnsla hófst í nýju hátækni fiskvinnslu Samherja á Dalvík, starfsemi þar hefur gengið mjög vel, að því er segir á vef fyrirtækisins og met verið slegið því aldrei hefur verið unnið úr jafn miklu hráefni.

„Í ágúst í fyrra hófst vinnsla í nýju húsi og má með sanni segja að árið hafi verið mjög krefjandi og viðburðaríkt. Við þurftum að takast á við Covid-19 með öllum þeim takmörkunum og reglum sem því fylgdu. Á sama tíma opnuðum við nýja vinnsluhúsið með gerbreyttri tækni og tækjum. Allt starfsfólk þurfti að læra ný vinnubrögð og tileinka sér fjölmargar tækninýjungar. Vegna Covid-faraldursins var ekki hægt að fá sömu aðstoð og í „venjulegu árferði“ og til marks um það má nefna að engir utanaðkomandi sérfræðingar komu í húsið svo mánuðum skipti,“ segir á vef Samherja.

„Með samstilltu átaki allra starfsmanna tókst opnunin frábærlega og vinnslan hefur gengið vonum framar. Nú, ári seinna, höfum við unnið úr um 16.500 tonnum af hráefni sem er það langmesta sem unnið hefur verið úr á Dalvík á einu ári til þessa. Fyrra metið var árið 2018 þegar unnið var úr tæplega 15.000 þúsund tonnum. Uppistaða hráefnisins var eins og áður þorskur en við höfum unnið meira af ýsu en við höfum áður gert og hefur það gengið mjög vel.“

Allt selt á viðunandi verði

„Þrátt fyrir að Covid hafi sett mark sitt á alla helstu markaði heims höfum við náð að selja allar afurðir á ásættanlegu verði. Helstu viðskiptavinir okkar eru stórmarkaðir víða um Evrópu. Með nýrri tækni á Dalvík höfum við getað lagað okkur hratt að breytingum á markaði og þjónustað viðskiptavini með þær vörur sem þeir hafa óskað eftir, á þeim tíma sem þeim hentar best.“

Í vikunni hófst fjögurra vikna sumarfrí í fiskvinnslunni á Dalvík. Þá tóku starfsmenn ÚA á Akureyri við keflinu; komu til vinnu á fimmtudaginn „tvíefldir eftir ótrúlegar 4 vikur í góða veðrinu hér fyrir norðan,“ segir á vef Samherja. „Með þessu fyrirkomulagi, þ.e. að hafa alltaf a.m.k. eina vinnslu í gangi, þjónustar Samherji viðskiptavini sína allt árið um kring. Það er mjög mikilvægt í viðskiptum með matvæli nú til dags.“

Nánar hér á vef Samherja.