Systurskip Samherja aflahæst ísfisktogara
Þrjú systurskip Samherja, Kaldbakur, Björgúlfur og Björg, eru í þremur efstu sætum yfir aflahæstu ísfisktogara landsins á síðasta ári. Sömu þrjú skip voru í efstu sætum sama lista árið áður.
Heildarafli Kaldbaks EA 1 á árinu var 9.144 tonn, Björgúlfur EA 312 landaði samtals 8.887 tonnum og afli Bjargar EA 7 var 8.660 tonn. Fjórði ísfisktogari Samherja, Harðbakur EA 3, landaði 5.638 tonn á árinu og samanlagður heildarafli togaranna var því 32.328 tonn. Þetta kemur fram á vef Samherja.
Togararnir sjá landvinnslum félagsins á Akureyri og Dalvík fyrir hráefni, þar sem starfa samtals um þrjú hundruð manns. Á skipum Samherja eru tvöfaldar áhafnir og eru um eitt hundrað sjómenn á ísfisktogurum félagins.
Pálmi Gauti Hjörleifsson skipstjóri á Kaldbaki EA 1 segir í sjálfu sér ekkert sérstakt markmið að vera á toppnum. Fleiri þættir komi til.
„Kaldbakur er afar vandað og öflugt skip og áhöfnin er skipuð reyndum og samstilltum mönnum í hverju rúmi. Sama má segja um önnur skip og áhafnir hjá Samherja. Veiðiheimildir hafa vissulega dregist saman og því skiptir miklu máli að skila á réttum tíma góðum og verðmætum afla til vinnslu,“ segir Pálmi Gauti á vef fyrirtækisins.

Kaldbakur, Björgúlfur og Björg á Pollinum fyrir nokkrum árum, talin frá hægri; þessi þrjú systurskip Samherja eru í þremur efstu sætum yfir aflahæstu ísfisktogara landsins á síðasta ári. Mynd: Skapti Hallgrímsson
„Þegar allt kemur til alls snýst þetta fyrst og fremst um liðsheild og samvinnu áhafnar, útgerðar, fiskvinnslu og ekki síst sölufólks sem er í stöðugum samskiptum við kaupendur afurðanna. Allir þessir aðilar þurfa að vinna þétt saman svo árangur náist,“ segir skipstjórinn.
„Við sigldum inn Eyjafjörðinn á síðasta degi ársins með góðan afla til vinnslu, ég held allir sáttir við niðurstöður ársins líkt og áhafnir annarra skipa Samherja. Þegar nýtt ár var rétt hafið, aðfaranótt 2. janúar, héldum við svo aftur til veiða fullir bjartsýni fyrir komandi ári,“ segir Pálmi Gauti Hjörleifsson skipstjóri.
Bolfiskveiðar gengu vel
„Þegar upp er staðið má segja að bolfiskveiðarnar hafi almennt gengið vel. Á móti skertum veiðiheimildum kom að verð á afurðum voru góð á árinu. Hráefnisstýring er stór þáttur í starfseminni, þar sem veiðar, vinnsla og sala afurða verða að fara saman. Ísfisktogararnir eru burðarásar vinnsluhúsanna á Dalvík og Akureyri og með öguðu skipulagi tókst að halda landvinnslunum gangandi svo að segja alla daga, enda kallar markaðurinn eftir stöðugu framboði,“ segir Þorvaldur Þóroddsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja á vef fyrirtækisins.
„Áskoranir komandi árs eru margvíslegar en Samherji er öflugt félag í alla staði, innviðir eru traustir sem skiptir höfuðmáli til að ná settu marki. Ég er stoltur af mínu samstarfsfólki, við siglum vonglöð inn í nýtt ár,“ segir Þorvaldur.
Myndir af skipunum og áhöfnum þeirra má sjá hér – á vef Samherja.