Fara í efni
Fréttir

Umhverfisstofnun staðfestir vatnsgufuna

Skoðun Umhverfisstofnunar á hollenska skemmtiferðaskipinu Zuiderdam leiddi í ljós að útblástur mengunarefna hafi verið innan leyfilegra marka. Frá þessu var greint í fréttum Rúv núna síðdegis. Skipið vakti athygli og andúð margra þegar það spúði því sem virtist að minnsta kosti vera þykkur mengunarstrókur. 

Rekstraraðilar skipsins gáfu út að um bilun í hreinsibúnaði hafi verið að ræða og útblásturinn hafi að mestu verið vatnsgufa. Fulltrúar umhverfisstofnunar fóru um borð í hollenska skemmtiferðaskipið á laugardag til að kanna orsakir þess að þykkan reyk lagði úr strompi skipsins í margar klukkustundir. 

Í frétt Rúv var rætt við Kristínu Kröyer, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun, sem sagði að athugunin hafi leitt í ljós að útblásturinn frá skipinu hafi verið langt innan leyfilegra marka. „Það sem var að koma upp úr strompunum er, eins og skipið hefur sagt sjálft, að öllum líkindum vatnsgufa,“ sagði Kristín í samtali við Rúv. Bilun í hreinsibúnaði hafi orðið til þess að meiri vatnsgufa hafi farið upp um strompana en venjan er. Þetta hafi því ekki verið mengun frá eldsneyti, en vissulega sé alltaf einhver mengun í vatnsgufunni.

Mikil umræða skapaðist og mörgum myndum var deilt á samfélagsmiðlum sem sýndu útblásturinn frá skipinu. 


Skemmtiferðaskipið Zuiderdam safnaði ekki vinum á svæðinu síðastliðinn fimmtudag.