Fara í efni
Fréttir

Traust starfsmanna á stjórn HSN að engu orðið

Yfirlæknar HSN á Akureyri, Jón Torfi Halldórsson til vinstri, og Valur Helgi Kristinsson. Á milli þeirra er Fjölnir Guðmannsson, formaður læknaráðs. Sunnuhlíð í bakgrunni, þar sem ný heilsugæslustöð verður opnuð í byrjun næsta árs.

Læknaráð Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri fordæmir vinnubrögð og ákvarðanatöku framkvæmdastjórnar HSN vegna uppsagna tveggja yfirlækna og hvetur til að ákvörðunin verði dregin til baka að öllu leyti. Þetta kemur fram í ályktun sem læknaráðið afhenti framkvæmdastjórn fimmtudaginn 12. október.

Ákvörðunin hefur rekið fleyg í gott samstarf. Traust starfsmanna á framkvæmdastjórn er að engu orðið,” segir í ályktun læknaráðsins. Ennfremur að það hvernig skipulagsbreytingarnar eru unnar og kynnntar gangi þvert á einkunnarorð stofnunarinnar, sem eru fagmennska, samvinna og virðing.

Fram kemur í ályktun læknaráðsins að þann 29. september hafi Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN, kynnt ákvarðanir framkvæmdastjórnar undir nafninu Flutningur í Sunnuhlíð og skipulagsbreytingar því tengdar. Þar kemur meðal annars fram að í meginatriðum felist skipulagsbreytingarnar í því að núverandi yfirlæknum verði sagt upp störfum og að auglýst verði ein staða yfirlæknis, eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag. Þá verði ungbarna- og mæðravernd sameinaðar, heilsueflandi móttaka og ADHD-teymi verði hluti af hjúkrunarmóttöku og að þjónusta við nemendur framhaldsskóla færist undir skólahjúkrun. 

Tveir reyndustu sérfræðingarnir á förum

Læknaráðið gagnrýnir meðal annars að tveimur reyndustu sérfræðingunum á Heilsugæslustöðinni á Akureyri skuli vera sagt upp störfum og að það komi framkvæmdastjórn á óvart að þessir sérfræðingar í heimilislækningum líti á uppsögnina sem slíka og búi sig undir að hætta alfarið störfum við stöðina.

Þá hafi framkvæmdastjórn á sama hátt sagt upp ljósmóður með áratuga reynslu og ákveðið að steypa saman þáttum í starfsemi stöðvarinnar sem séu í grundvallaratriðum ólíkir og er þar vísað til heilsueflandi móttöku og hjúkrunarmóttöku, auk þess sem ADHD-teymi, sem ekki sé til, verða hluti hennar.

Fjölga þarf heimilislæknum, ekki auka álagið á þá sem fyrir eru

Öllum er ljóst að erfitt er að fá sérfræðinga í heimilislækningum til starfa. Læknar HAK hafa fyrr á árinu fundað með forstjóra HSN vegna mikils álags og hann fengið greinargóðar upplýsingar. Hann lýsti þá yfir vilja til að vinna að lausnum. Það hefur ekki skilað sér öðrum breytingum en þeim sem nú hafa verið kynntar,segir í ályktuninni.

Þá segir í ályktuninni að þvert á ráðleggingar Félags íslenskra heimilislækna sé stefnt að því að fjölga einstaklingum í samlögum með því að færa verkefni og ábyrgð frá yfirlæknum á læknahópinn. Læknar fagni því að stefnt sé að því að allir á Akureyri hafi heimilislækni, en því markmiði þurfi að ná með fjölgun heimilislækna, ekki með því að auka álagið á þá sem fyrir eru.

Vekur glundroða og veldur áhyggjum

Í ályktuninni er einnig lögð áhersla á þann mannauð og fjölda fólks með sérþekkingu sem starfar við Heilsugæslustöðina á Akureyri sem sé grundvöllur þess að veita skjólstæðingum þjónustu af bestu gæðum þrátt fyrir álag og manneklu. Starfsfólkinu hafi tekist að mynda þéttan, sterkan og samstæðan hóp og innan hans ríki mikið traust. Altalað sé að þessi staða hafi komið í veg fyrir uppsagnir vegna álags, en þó ekki allar. Ákvörðun framkvæmdastjórnar komi hins vegar án nokkurs samráðs við starfsfólk, engin rýni hafi farið fram og enginn undirbúningur, engar viðræður við starfsfólkið, ekki leitað álits starfsfólks um hvaða breytingar gætu verið til hagsbóta fyrir starfsemina, engar viðræður við lækna um hvað geti gert þeim kleift að stækka samlögin.

Það má því álykta að hugmyndir framkvæmdastjórnar séu unnar út frá það takmörkuðum upplýsingum að viðbúið er að tjón hljótist af því að hrinda þeim í framkvæmd. Eðlilega hefur þetta valdið glundroða og vakið áhyggjur meðal starfsmanna,” segir í ályktuninni.

Jón Torfi Halldórsson yfirlæknir, Jón Helgi Björnsson forstjóri HSN og Valur Helgi Kristinsson yfirlæknir. Sunnuhlíð í bakgrunni, þar sem ný heilsugæslustöð verður opnuð í byrjun næsta árs. 

Ályktun læknaráðsins er í heild svohljóðandi:

„29. september s.l. kynnti Jón Helgi Björnsson forstjóri HSN ákvarðanir framkvæmdastjórnar undir nafninu: Flutningur í Sunnuhlíð og skipulagsbreytingar því tengdu.

Í inngangi forstjórans kemur fram að Heilbrigðisstofnun Norðurlands hafi fagmennsku, samvinnu og virðingu að leiðarljósi.

Skipulagsbreytingarnar felast í eftirfarandi megin atriðum:

  • Núverandi yfirlæknum er sagt upp störfum og auglýst verður ein staða yfirlæknis.
  • Sameining ungbarna og mæðraverndar
  • Heilsueflandi móttaka og ADHD teymi verði hluti af hjúkrunarmóttöku
  • Þjónusta við nemendur framhaldsskóla færist undir skólahjúkrun.

Til að ná markmiðum sínum hefur framkvæmdastjórn HSN ákveðið fyrirvaralaust að segja upp tveimur reyndustu sérfræðingunum á HAK, sem hafa gegnt stöðum yfirlækna. Framkvæmdastjórnin hefur á sama hátt sagt upp ljósmóður með áratuga reynslu. Ákvörðun hefur verið tekin um að steypa saman þáttum í starfsemi stöðvarinnar, sem eru ólíkir í grundvallaratriðum, þ.e. heilsueflandi móttöku og hjúkrunarmóttöku. Auk þess skal ADHD teymi, sem ekki er til, verða hluti hennar.

Nú kemur það framkvæmdastjórn á óvart að þessir sérfræðingar í heimilislækningum líti á uppsögnina sem slíka, og undirbúa sig undir að hætta alfarið störfum við stöðina.

Öllum er ljóst að erfitt er að fá sérfræðinga í heimilislækningum til starfa. Læknar HAK hafa fyrr á árinu fundað með forstjóra HSN vegna mikils álags og hann fengið greinargóðar upplýsingar. Hann lýsti þá yfir vilja til að vinna að lausnum. Það hefur ekki skilað sér öðrum breytingum en þeim sem nú hafa verið kynntar. Það er óskiljanlegt að við þessar aðstæður sé ekki stigið varlega til jarðar í skipulagsbreytingum og vinnuframlag lækna tryggt áfram sé þörf á að þeir færist til í starfi.

Á sama tíma og framkvæmdastjórn vill færa verkefni og ábyrgð frá yfirlæknum yfir á læknahópinn er stefnt á að auka fjölda einstaklinga í samlögum. Það er þvert á ráðleggingar félags íslenskra heimilislækna sem mælir með samlagsstærð uppá 1.200 einstaklinga í þéttbýli þar sem ekki eru gengnar vaktir. Við fögnum því að stefnt sé að því að allir á Akureyri hafi heimilislækni. En því markmiði þarf að ná með fjölgun heimilislækna, ekki með því að auka álagið á þá sem fyrir eru.

Að auki er stefnt að því að útbúa nýja starfslýsingu fyrir yfirlækni á heilsugæslunni á Akureyri. Enginn læknir á stöðinni kannast við að spurt hafi verið út í dagleg verkefni yfirlæknis, hlutverk og störf í þeirri vinnu.

Þessi vinnubrögð bera vott um að framkvæmdastjórn sé í litlum tengslum við starfsfólk heilsugæslunnar á Akureyri og hafi engan veginn fullnægjandi innsýn í það starf sem þar fer fram.

Framkvæmdastjórn hefur nú að markmiði að hjúkrunarfræðingar geti sinnt fleiri en einu sérsviði. Nefnt er að skólahjúkrunarfræðingur eigi að geta sinnt ungbarnavernd og að hjúkrunarfræðingur í ungbarnavernd geti starfað í hjúkrunarmóttöku eða í heimahjúkrun.

Þessar hugmyndir framkvæmdastjórnar miða ekki að því bæta faglega þjónustu. Eins og þessar hugmyndir eru kynntar er ekkert tillit tekið til þess að í ungbarnavernd og mæðravernd starfa ljósmæður með sex ára nám að baki. Í tillögunum er yfirleitt ekkert gert með að hjúkrunarfræðingar hafi sérmenntað sig. Þessu má jafna við að stjórn Sjúkrahússins á Akureyri tæki ákvörðun um sérfræðilæknar eigi að geta sinnt fleiri en einni grein, geðlæknirinn á kvennadeild og bæklunarlæknirinn á barnadeild o.s.frv.

Einn megin styrkur HAK er fjöldi fólks með sérþekkingu. HAK nýtur þess að þar starfa hjúkrunarfræðingar og ljósmæður með ríka þekkingu og reynslu á ýmsum fagþáttum. Þetta er grundvöllur þess að HAK getur veitt skjólstæðingum sínum hágæða þjónustu þrátt fyrir álag og manneklu. Starfsfólki HAK hefur tekist að mynda þéttan, sterkan og samstæðan hóp. Mikið traust ríkir innan hópsins.

Altalað er að þetta hefur komið í veg fyrir uppsagnir vegna álags, en þó ekki allar.

Framkvæmdastjórn hefur tekið þessa ákvörðun án nokkurs samráðs við starfsfólk HAK. Engin rýni hefur farið fram. Enginn undirbúningur. Engar viðræður við starfsfólkið. Ekki leitað álits starfsfólks um hvaða breytingar geti verið til hagsbóta fyrir starfsemi heilsugæslunnar. Engar viðræður við lækna um hvað gæti gert þeim kleift að stækka samlögin. Það má því álykta að hugmyndir framkvæmdastjórnar séu unnar út frá það takmörkuðum upplýsingum að viðbúið er að tjón hljótist af því að hrinda þeim í framkvæmd.

Eðlilega hefur þetta valdið glundroða og vakið áhyggjur meðal starfsmanna. Ákvörðunin hefur rekið fleyg í gott samstarf. Traust starfsmanna á framkvæmdastjórn er að engu orðið.

Hvernig þessar skipulagsbreytingar eru unnar og kynntar gengur þvert á einkunnarorð stofnunnarinnar, sem eru fagmennska, samvinna og virðing.

Læknaráð HAK fordæmir vinnubrögð og ákvarðanatöku framkvæmdastjórnar HSN og hvetur til að ákvörðunin verði dregin til baka að öllu leyti.“