Fara í efni
Fréttir

Tímamótabörn eiga sama afmælisdag!

Tímamótabörnin: Sigurjón Steinsson með Guðmund árið 1968 og Þórey Erla með Rebekku Rún í gær. Myndir: Sverrir Pálsson og Skapti Hallgrímsson

Íbúar Akureyrar urðu 20 þúsund föstudaginn 14. apríl síðastliðinn þegar 13 marka stúlka fæddist á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Hún fær nafnið Rebekka Rún Alexandersdóttir eins og Akureyri.net greindi frá í gær, eftir að Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri sótti litlu fjölskylduna heim, tímamótastúlkuna og foreldra hennar, Þóreyju Erlu Erlingsdóttur og Alexander Ottó Þrastarson.

Það var árið 1967 sem íbúar bæjarins urðu 10 þúsund. Það tímamótabarn var drengur, sonur hjónanna Sigríðar Þórðardóttur og Sigurjóns Steinssonar. Hann fékk nafnið Guðmundur og varð síðar kunnur skíðamaður. Guðmundur er búsettur í Noregi.

Svo ótrúlega vill til að Rebekka Rún og Guðmundur eiga sama afmælisdag. Hann fæddist einnig 14. apríl, sem árið 1967 bar meira að segja líka upp á föstudag.

Frétt Morgunblaðsins af 10 þúsundasta íbúa Akureyrar.

Ekki var upplýst um að Guðmundur væri 10 þúsundasti íbúi bæjarins fyrr en tæpu ári síðar, á fundi bæjarráðs 21. mars 1968. Það var raunar merkisviðburður, þúsundasti fundur bæjarráðs Akureyrar frá upphafi. Sverrir Pálsson skólastjóri, fréttaritari Morgunblaðsins, sagði svo frá í blaðinu:

„Á þessum afmælisfundi var samþykkt, að heiðra 10 þúsundasta borgara Akureyrar sérstaklega og var hann viðstaddur ásamt foreldrum sínum. Alllangan tíma hefur tekið að komast að því, hver hann var í raun og veru, en að lokum reyndist vera um að ræða Guðmund Sigurjónsson, Akurgerði 4, f. 14. 4. 1967. Bæjarstjóri afhenti honum að gjöf frá Akureyrarbæ heiðursskjal og sparisjóðsbók með 10.000 króna innstæðu. Foreldrar hans, Sigurjón Steinsson og Sigríður Þórðardóttir, fengu stóra og fagra blómakörfu.“

Fréttir Akureyri.net í gær um tímamótin:

Dóttir Þóreyjar og Alexanders er 20 þúsundasti íbúi Akureyrar

Tímamótastúlkan fær nafnið Rebekka Rún

Mynd af bæjarráði, Guðmundi litla og foreldrum hans var efst á forsíðu Akureyrarblaðsins Dags.

Frásögn Akureyrarblaðsins Alþýðumannsins af 10 þúsundasta íbúanum.