Fara í efni
Fréttir

Dóttir Þóreyjar og Alexanders er 20 þúsundasti íbúi Akureyrar

Stoltir foreldrar og bæjarstjórinn! Ásthildur Sturludóttir með tímamótastúlkuna, Þórey Erla Erlingsdóttir og Alexander Ottó Þrastarson. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Íbúar Akureyrar eru orðnir 20 þúsund! Stúlka sem fæddist klukkan 7.44 að morgni föstudagsins 14. apríl reyndist tímamótabarnið sem beðið hefur verið eftir.

Foreldrarnir, Þórey Erla Erlingsdóttir og Alexander Ottó Þrastarson, voru alsælir í dag eins og nærri má geta þegar Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, sótti þau heim og færði þeim og dótturinni blómvönd og gjafir.

Stúlkan, sem var 13 merkur, er fyrsta barn Þóreyjar og Alexanders. Fæðingin gekk vel að sögn móðurinnar og allt hefur gengið eins og í sögu síðan hún kom í heiminn. 

„Ég óska ykkur innilega til hamingju með litlu stúlkuna sem er 20 þúsundasti íbúi Akureyrarbæjar. Við viljum fagna því alveg sérstaklega, það er risastór áfangi fyrir okkur að vera orðin þetta mörg og dásamlegt að þessi litla stúlka skuli vera númer 20 þúsund,“ sagði Ásthildur bæjarstjóri þegar hún afhenti foreldrum gjafirnar, með góðum óskum. „Ég vona að hún dafni vel og guð og gæfa fylgi henni alla tíð.“

Það var Tinna Jónsdóttir ljósmóðir sem tók á móti stúlkunni. Kristín Hólm Reynisdóttir ljósmóðir var einnig viðstödd, svo og Orri Ingþórsson fæðingarlæknir, þar sem nota þurfti sogklukku til að koma þeirri litlu í heiminn, að sögn Þóreyjar.

Hún er bestu verðlaunin

Foreldrarnir höfðu ekki velt því fyrir sér að dóttir þeirra yrði möguleika 20 þúsundasti íbúi bæjarins. „Ein ljósmóðirin á fæðingardeildinni nefndi við okkur að 20 þúsundasti íbúinn myndi líklega fæðast í þessari viku en við bjuggumst ekki við neinu. Það var því smá sjokk þegar var hringt í okkur,“ sagði faðirinn stoltur við Akureyri.net. Bætti við að alltaf væri gaman að fá verðlaun en „hún sjálf er að sjálfsögðu bestu verðlaunin,“ sögðu foreldrarnir nánast einum rómi.