Fara í efni
Fréttir

Tímamótastúlkan fær nafnið Rebekka Rún

Alsælir foreldrar, Þórey Erla Erlingsdóttir og Alexander Ottó Þrastarson, með Rebekku Rún fyrr í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Íbúar Akureyrar eru orðnir 20 þúsund í fyrsta skipti eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag. Tímamótabarnið er stúlka sem fæddist 14. apríl og fær hún nafnið Rebekka Rún. Foreldrarnir, Þórey Erla Erlingsdóttir og Alexander Ottó Þrastarson, tilkynntu það í dag.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, sótti fjölskylduna heim í dag og kom færandi hendi; afhenti Þóreyju, Alexander og Rebekku blómvönd og gjafir; nuddsamfellu frá Cuddle-Me, Lýðheilsukortið og silfurskjöld sem á er letrað nafn barnsins, fæðingardagur og hamingjuóskir frá Akureyrarbæ til litlu stúlkunnar.

Stúlkan, sem var 13 merkur, er fyrsta barn Þóreyjar og Alexanders. Fæðingin gekk vel að sögn móðurinnar og allt hefur gengið eins og í sögu síðan hún kom í heiminn.

Frétt Akureyri.net fyrr í dag: Dóttir Þóreyjar og Alexanders er 20 þúsundasti íbúi Akureyrar

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fékk að halda á 20 þúsundasta í íbúa bæjarins í dag.