Stjórnar stólnum með augunum – MYNDBAND

„Ég get farið einn til mömma núna,“ svarar Karl Guðmundsson – Kalli – með aðstoð tölvu, þegar spurt er hvort það sé ekki ótrúleg breyting að geta stjórnað hjólastólnum með augunum. Bætti við stuttu síðar að nú gæti hann ferðast hvert á land sem er! Kalli er fyrsti Íslendingurinn sem notar búnaðinn.
Það var stór stund í lífi Kalla þegar hann keyrði hjólastólinn sinn í fyrsta skipti sjálfur, með því að nota augnskynjara, eins og akureyri.net fjallaði ítarlega um nýverið. Það var á heimili hans, en akureyri.net fylgdist líka með því þegar Kalli stjórnaði stólnum í fyrsta skipti í stóru rými. Þeir Kári Þorleifsson, aðstoðarmaður Kalla til margra ára, hugðust fara á rúntinn á hlaupabrautinni við Þórsvöllinn en vegna úrhellisrigningar ákváðu þeir að vera inni í Boganum.
„Sjáumst!“
Stundin í Boganum var stórkostleg. Þar er nóg pláss og engin fyrirstaða. Kári spyr: „Eigum við að prófa að auka hraðann? Hefurðu nokkuð farið í botn áður?“ Stóllinn rúllar af stað andartaki síðar. „Sjáumst,“ segir Kári þá, og Kalli ekur sem leið liggur að hinum enda vallarins og aftur til baka.
Kalli keyrði stólinn á dögunum í fyrsta skipti heiman að frá sér, að heimili móður hans, Ingibjargar Auðunsdóttur. „Hann lét á það reyna um helgina. Það var gamall draumur,“ segir Kári Þorleifsson, aðstoðarmaður Kalla til margra ára. Ekki er ýkja langt á milli húsanna, en „við hefðum ekki komist nálægt því með gamla búnaðinum,“ bætir Kári við.
Smellið HÉR eða á myndina til að sjá myndbandið úr Boganum.