Fara í efni
Fréttir

Augnstýribúnaðurinn frá þýsku stoðfyrirtæki

Aron Bjarnason hjá Stoð og Jason Box hjá Homebrace. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

11. september var stór dagur fyrir Karl Guðmundsson, Kalla, sem varð þá fyrsti notandinn á Íslandi að augnstýrðum búnaði til þess að keyra hjólastól. Það voru þeir Jason Box og Aron Bjarnason sem komu með búnaðinn, en Jason Box er starfsmaður Homebrace, sem er þýskt stoðtækjafyrirtæki. Hann hefur unnið við að þróa tæknilausnir á heilbrigðissviðinu í langan tíma, og er búnaðurinn sem Kalli fær frá Homebrace, þó sérútfærður fyrir Kalla.

Aron Bjarnason er hjá Stoð, sem er umboðsaðili fyrir Homebrace á Íslandi. Jason kom til landsins til þess að kynna lausnir fyrirtækisins síðasta vor. Þá var Kalli einn af þeim, sem komu og fengu að prófa það sem Jason hafði upp á að bjóða. Blaðamaður Akureyri.net greip þá Jason og Aron þegar Kalli var búinn að fá búnaðinn og keyra nokkrar ferðir í íbúðinni sinni í Hjallalundi á Akureyri. 

Í gær birtum við umfjöllun um Kalla og nýja búnaðinn:

Hér er Jason að sýna Kalla og kenna honum á búnaðinn. Aron og Engilbert Haukur Kolbeinsson, aðstoðarmaður Kalla, fylgjast vel með. Mynd: RH

Löng saga hjá Kalla og Stoð

„Kalli kom til Reykjavíkur og hitti okkur þar,“ segir Jason. „Hann var nú þegar að nota augnstýribúnað og orðinn mjög fær í því, og það sem við höfum þróað er í rauninni viðbót við þennan búnað sem er settur á stólinn og gerir notandanum kleift að keyra með því að stýra músarbendli á skjá með augunum.“ 

Um leið og hann prófaði þetta, var það bara allt annað

„Stoð er fyrirtæki í heilbrigðisgeiranum sem bæði framleiðir hjálpar- og stoðtæki og svo erum við að selja tæki frá öðrum birgjum,“ segir Aron Bjarnason, en Kalli er góður vinur þeirra og hefur verið með rafmagnshjólastól frá þeim í 10 ár. „Stoðtækjafræðingar hjá okkur hafa verið að þróa tækniuppfærslur fyrir Kalla lengi – hann er búinn að vera viðskiptavinur hjá Stoð liggur við frá því að hann fæddist. Það er mjög náið samband þarna myndi ég segja.“

 

Jason er farinn aftur erlendis, þar sem hann býr og starfar, en Berti er tækniglúrinn og tók að sér að fylgjast vel með og læra á búnaðinn. Jason segir þó að ef að hans aðstoðar sé þörf, geti hann komið til hjálpar í fjartengingu. Mynd: RH

Gengur eins og í sögu

„Það er gríðarlega stórt fyrir hann að geta keyrt sjálfur, það er búið að gera ýmsar tilraunir og það gengið misvel,“ segir Aron. „En um leið og hann prófaði þetta, var það bara allt annað. Hann er svo fær á tjáskiptaforritinu sem hann stýrir með augunum þannig að þetta er alveg fullkomið fyrir hann.“

„Kalli er að standa sig ótrúlega vel,“ segir Jason að lokum. „Við erum búnir að séraðlaga tæknina fyrir Kalla, og þetta gengur bara eins og í sögu sýnist mér!“

Mátti alls ekki missa af þessu

Kvikmyndagerðarfólk var á staðnum, þegar Kalli fékk búnaðinn – en verið er að leggja lokahönd á mynd um Kalla. „Það var ekki hægt að missa af þessu,“ segir Kári Þorleifsson, aðstoðarmaður Kalla til margra ára. „Þau voru búin að segja að tökum væri hætt – en það varð að hafa þetta með, þetta er svo stór stund í lífi Kalla.“

Búast má við að myndin verði frumsýnd á næsta ári. Hér má lesa umfjöllun um myndina Dansandi línur, en hennar er beðið með mikilli eftirvæntingu.