Gríðarlega stór stund í lífi Kalla

Það var stór stund í lífi Karls Guðmundssonar, betur þekktum sem Kalla, þegar hann keyrði hjólastólinn sinn í fyrsta skipti sjálfur, með því að nota augnskynjara. Það var um hádegisbil á fimmtudaginn síðasta, 11. september, þegar þeir Jason Box frá Homebrace og Aron Bjarnason frá Stoð komu þessari nýju tækni fyrir á hjólastól Kalla, og hann keyrði sjálfur nokkrar ferðir fram og aftur um ganginn í íbúðinni sinni. Kalli er með CP-hreyfihömlunarsjúkdóm, og hefur alla tíð verið fastur við hjólastól og upp á aðra kominn, þannig að það er rétt hægt að ímynda sér, hversu stór stund þetta hefur verið fyrir hann.
Fyrstur á landinu
Kalli er fyrsti Íslendingurinn til þess að fá þennan búnað, en hann hitti Jason frá Homebrace í Reykjavík í mars síðastliðnum, til þess að fá að prófa - og eftir að aðlaga tæknina að Kalla persónulega, er Jason kominn í Hjallalundinn á Akureyri til þess að afhenda búnaðinn.
Stór stund í lífi Kalla. Mynd: RH
Vinir og starfsmenn samgleðjast
„Mér líður eins og hann sé búinn að vera að æfa sig í 20-30 ár fyrir þennan dag,“ segir Kári Þorleifsson, sem hefur þekkt Kalla síðan hann fermdist árið 2001, og verið hans aðstoðarmaður og vinur. Það eru miklar tilfinningar í loftinu, þegar Kalli keyrir stólinn, og það er áhugavert að fylgjast líka með aðstoðarfólki hans og vinum, sem samgleðjast honum gríðarlega.
Ekkert víst að Kalli nenni að búa á þriðju hæð lengur
„Síðustu 16 árin hefur tækni á þessu sviði fleygt fram, og Kalli hefur verið að fá ný tæki og nýjar lausnir með reglulegu millibili. Þetta er tæknin sem við erum búin að vera að bíða eftir, vegna þess að hann er nú þegar orðinn mjög góður í að stjórna með augunum,“ segir Kári. „Ég vissi bara, að ef að einhver myndi þróa aðferð til þess að keyra stólinn með augunum, þá myndi það vera besta lausnin fyrir Kalla. Og nú er það orðið að veruleika.“
„Við höfum reynt allskonar höfuðstjórnunarbúnað, sem hefur verið erfitt, vegna þess að hann glímir við spasma sem truflar,“ segir Kári. „Það er ótrúlegt að fylgjast með honum núna, hann hefur ótrúlega góð tök á þessu strax. Ég var mjög bjartsýnn fyrir þessa stund, og það hefur ekkert dregið úr því.“
Kalli keyrir sjálfur! Berti, Engilbert Haukur Kolbeinsson, einn af aðstoðarmönnum hans, sem er klár í tæknimálum - fylgist vel með, en hann hefur tekið að sér að læra vel á búnaðinn til þess að miðla áfram til hinna þegar Jason er farinn. Mynd: RH
Náði strax góðu sambandi við tæknina
„Það var ótrúlegt að fylgjast með því, þegar við hittum Jason fyrir sunnan og Kalli fékk að prófa í fyrsta sinn,“ segir Kári, en Kalli fór suður í hálfgerðri blindni, ekki alveg viss um við hverju væri að búast. „Jason sýnir honum skjáinn, segir honum í stuttu máli hvernig þetta virkar - og svo bara keyrir gæjinn!“
Það sem tekur við er að Kalli læri enn betur á stólinn, og við starfsfólkið líka
„Kalli hefur verið að nota augnstjórnunarbúnað í fjöldamörg ár, til ýmissa hluta, og hefur náð mjög góðum tökum á því. Við höfum samt alltaf passað okkur á tækninýjungum, passað upp á væntingastjórnun,“ segir Kári. „En við höfðum öll á tilfinningunni, eftir þessa stund með Jason, að þarna væri þetta komið - tæknilausnin sem hentar honum langbest, og það er ekki spurning núna.“
Á skjánum birtast örvar, og þegar Kalli keyrir eru þær staðsettar ofan á streymi af því sem framundan er, svo Kalli geti horft bara á skjáinn. Hann notar augun til þess að færa bendil á þær örvar sem hann vill nota. Mynd: RH
Aukið frelsi kallar ef til vill á breytingar
„Það sem tekur við er að Kalli læri enn betur á stólinn, og við starfsfólkið líka,“ segir Kári. „Svo þarf kannski bara að fara að huga að flutningum! Ekkert víst að Kalli nenni að búa á þriðju hæð lengur. Mér finnst bara að pallur, garður og jarðhæð öskri á okkur núna.“
„Þetta er bara gæsahúð,“ segir Kári, aðspurður um hvernig hafi verið að deila þessari stund í lífi Kalla. „Geðshræring í allan morgunn. Og þó að ég sé bjartsýnn þá er alltaf smá ótti, við að eitthvað fari úrskeiðis, en það hefur allt gengið svo vel og nú langar mig bara út að labba með Kalla!“
Á morgun birtir akureyri.net viðtal við Jason Box frá Homebrace og Aron Bjarnason frá Stoð, sem komu með búnaðinn til Kalla á fimmtudaginn var.