Fara í efni
Fréttir

Skúli Gunnar leiðir verkefni um orkuskipti

Akureyringurinn Skúli Gunnar Árnason hefur verið ráðinn til starfa hjá Eimi og mun þar leiða Evrópuverkefni um orkuskipti í dreifðum byggðum. Þetta kemur fram á vef Eims

Verkefnið Rural Europe for the Clean Energy Transition (RECET) hlaut nýverið styrk sem nemur um 1,5 milljónum evra (225 milljónum króna) úr LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. RECET er samstarfsverkefni fimm landa og tuga sveitarfélaga um alla Evrópu, með Ísland í fararbroddi. RECET miðar að því að efla getu sveitarfélaganna og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin. Skúli Gunnar mun leiða þetta verkefni.

,,Orkuskiptin eru mikilvægt og gríðarstórt verkefni sem snertir okkur öll og gegna sveitarfélögin þar lykilhlutverki. RECET verkefnið er nauðsynlegur stuðningur við alla hagsmunaaðila, svo hægt sé að ná markmiðum um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040“, segir Skúli Gunnar í tilkynningu Eims.

Skúli er vélaverkfræðingur og útskrifaðist með BSc gráðu frá Háskóla Íslands árið 2009 og með MSc gráðu frá DTU árið 2013. Skúli vann við rannsóknir og þróun hjá Siemens Turbomachinery í Danmörku frá 2014. Árið 2017 keypti Howden Turbo fyrirtækið og tók Skúli þar við hlutverki deildarstjóra í þessari sömu deild. Þar stýrði hann alþjóðlegum verkefnum við þróun og framleiðslu á vörum sem sneru að skólphreinsun, reykhreinsun og að því að draga úr mengun og eldsneytiseyðslu skemmtiferðaskipa og gámaskipa.

Skúli flutti til Íslands árið 2021 eftir 10 ára búsetu í Danmörku með eiginkonu sinni Sigríði Katrínu Magnúsdóttur, heilbrigðisverkfræðingi og þremur börnum. Þá hóf hann störf hjá Eflu þar sem hann hefur sinnt m.a. þróunarverkefnum, hönnun á búnaði fyrir virkjanir og lagna-, dælu- og kerfishönnun fyrir margvíslegan iðnað.

,,Ég hef fylgst með því mikilvæga og spennandi starfi sem Eimur hefur verið að vinna að undanfarin misseri og hlakka mikið til að vera hluti af teyminu“, segir Skúli Gunnar Árnason.

Skúli mun hefja störf 1. nóvember næstkomandi.