Fara í efni
Fréttir

Skiptir miklu máli að vinnufriður skapist

Björg EA siglir inn Eyjafjörð. Mynd af vef Samherja

Skattamálum á hendur félögum tengdum Samherja árin 2012 - 2018 hefur verið að fullu lokið í sátt á milli skattrannsóknarstjóra og Samherja eins og Akureyri.net greindi frá í morgun og vísaði í frétt Morgunblaðsins í dag.

Ítarleg tilkynning var birt um málið á vef Samherja í dag.

„Verulegur ágreiningur var um skattskyldu í þessum málum og skoðanir Samherja hf. og Skattsins ólíkar um lagagrundvöll skattskyldunnar. Gaumgæfileg skoðun Skattsins leiddi í ljós að gera mætti ráð fyrir að sá háttur sem hafður var á hefði ekki verið fullnægjandi í strangasta lagaskilningi. Líklegt væri að skattskylda hefði myndast að minnsta kosti að einhverju leyti. Við það bættist nýlegur dómur Landsréttar í eðlislíku máli þar sem réttaróvissu sem hér skipti máli var eytt og það félag sem þar átti í hlut dæmt til skattskyldu,“ segir á vef fyrirtækisins.

„Við þessar aðstæður taldi Samherji rétt að fallast á túlkun Skattsins og þar með skattskyldu. Við þá ákvörðun vó þungt að átta einstaklingar höfðu verið ranglega hafðir fyrir sök og haft réttarstöðu sakborninga um árabil í tengslum við umrædd skattamál. Var ljóst að ef til málaferla kæmi myndu þeir þurfa að sæta því álagi sem slíku fylgir um ókomin ár. Að mati stjórnenda Samherja hf. var afar mikilvægt að geta leyst úr þeim fjötrum sem slíkri réttarstöðu fylgir fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga. Hér skipti einnig miklu máli að orrahríð opinberra aðila hefur staðið á Samherja hf., samstæðufélögum þess, stjórnendum og starfsmönnum í rúman áratug. Því hefur fylgt mikið álag og inngrip í rekstur Samherja ekki síst vegna þess að fjöldi starfsmanna hefur haft réttarstöðu sakborninga á þeim tíma.

Þá skiptir miklu fyrir reksturinn að vinnufriður skapist, starfsfólk geti gengið til sinna starfa með eðlilegum hætti, ótruflað af málarekstri ef nokkur kostur er að ljúka honum, jafnvel þótt í því felist að gefið sé eftir um ítrustu kröfur í málsvörnum og aukin útgjöld fyrir félagið. Eins og áður segir nema þau útgjöld aðeins 0,6% aukningu á greiddum sköttum á því tímabili sem um ræðir og hafa ekki umtalsverð áhrif á rekstur umræddra félaga.“

Smellið hér til að sjá meira á vef Samherja.