Fara í efni
Fréttir

Skerðing frá 2020 nemur tveggja mánaða vinnslu

Fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík. Ljósmynd: Samherji

Fiskveiðiheimildir Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa í bolfiski skerðast verulega á nýju fiskveiðiári sem hófst 1. september, að því er segir á vef Samherja í morgun, sérstaklega í þorski og gullkarfa.

„Þorskurinn er verðmætasta fisktegundin við Ísland og meginuppistaðan í veiðum og vinnslu. Því er ljóst að á yfirstandandi fiskveiðiári verður mikil áskorun að halda úti fullri starfsemi í fiskvinnsluhúsum félaganna. Miðað við fiskveiðiárið 2020/21 hafa veiðiheimildir félaganna í þorski dregist saman um nærri fimmtung, eða um 3.800 tonn,“ segir á vef Samherja.

Samdráttur í þorski, ufsa og karfa en aukning í ýsu

Samtals er skerðing veiðiheimilda Útgerðarfélags Akureyringa og Samherja á yfirstandi fiskveiðiári í ofangreindum tegundum rúm 1.220 tonn miðað við nýliðið fiskveiðiár. Veiðiheimildir félaganna í þorski á þessu fiskveiðiári dragast saman um 6,3%. „Verulegur samdráttur er í gullkarfa og djúpkarfa eða 20 til 21%. Veiðiheimildir í ufsa skerðast sömuleiðis um 8,1%. Á móti kemur að veiðiheimildir í ýsu aukast sem nemur um 47%. Grálúða stendur í stað.“

Ef litið er aftur til fiskveiðiársins 2020/2021 blasir enn frekar við hversu mikill samdráttur í veiðiheimildum hefur orðið, segir í fréttinni: heimildir Útgerðarfélags Akureyringa og Samherja í þorski hafi dregist saman um 3.800 tonn, eða sem nemi um 19%.

Í tonnum talið sé skerðing Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa í bolfiski tæp sex þúsund tonn. Til að setja þessar tölur í samhengi er bent á að sex þúsund tonn dugi til að halda úti fullri vinnslu í fiskvinnsluhúsunum á Dalvík og Akureyri í um tvo mánuði.

Harðbak EA lagt tímabundið

„Allra leiða verður leitað til að bregðast við skertum veiðiheimildum, bæði til sjós og lands. Nú þegar hefur togaranum Harðbak EA verið lagt tímabundið. Engum í áhöfn var sagt upp heldur öllum skipverjum boðið pláss á öðrum skipum félaganna.

Á þessu almanaksári hefur landvinnsla aðeins fallið niður í einn dag vegna skorts á hráefni. Um þrjú hundruð manns starfa í landvinnslum ÚA og Samherja á Akureyri og Dalvík. Skerðingin í veiðiheimildum á bolfiski á þessu fiskveiðiári jafngildir hátt í tveggja vikna vinnslu í fiskvinnsluhúsunum á Akureyri og Dalvík.“

Markviss veiðistjórnun lykilatriði

„Við brugðumst við samdrætti síðasta árs meðal annars með því að þróa og bæta við vinnsluna í ufsa og viðtökur á mörkuðum voru jákvæðar. Einnig höfum við þróað verðmætari afurðir í þorski sem fallið hafa í góðan jarðveg hjá kaupendum. Það gefur augaleið að það verður á brattann að sækja á þessu fiskveiðiári þegar samdráttur í þorski er svona mikill,“ segir Hákon Þröstur Guðmundsson á útgerðarsviði Samherja.

„Með markvissri veiðistjórnun á liðnu fiskveiðiári tókst okkur að standa við alla gerða samninga um afhendingu afurða, sem skiptir gríðarlega miklu máli. Síðast en ekki síst, tókst okkur að halda úti fullri vinnslu í landi. Þetta á líka við um fiskiskipin, sem voru gerð út allt árið nema þegar um eðlilegt viðhald var að ræða. Auðvitað munum við leita allra leiða til að koma í veg fyrir lokanir, brekkan er að vísu nokkuð brattari en áður.

Við aðstæður eins og þessar skiptir mestu að hafa vel mannaða áhöfn og starfsfólkið hefur svo sannarlega verið lausnamiðað. Markaðssetning afurða um heim allan hefur sömuleiðis skilað góðum árangri, enda sölufyrirtækið Ice Fresh Seafood leiðandi í sölu á frosnum og ferskum bolfiskafurðum víða um heim.“

Veiðiheimildir færðar yfir á sumarveiði

Hákon Þröstur bendir á að veiðiheimildir strandveiðibáta í þorski hafi verið auknar verulega á undanförnum árum, bæði í tonnum og sem hlutfall af útgefnum veiðiheimildum. Þessi þróun sé á skjön við það sem aðrir í íslenskum sjávarútvegi eru að fást við í ljósi veiðiráðgjafar Hafrannsóknarstofnunar.

„Þetta hefur meðal annars verið rökstutt með því að verið sé að treysta atvinnusköpun og auka líf í höfnum með auknum strandveiðum yfir sumarmánuðina. Þar er ekki nema hálf sagan sögð. Þessi þróun þýðir einfaldlega að heilsársstörf í sjávarútvegi veikjast. Sjávarútvegurinn er burðarstólpi verðmætasköpunar víða á landsbyggðinni, þar sem fólk hefur getað treyst á vel launuð störf árið um kring. Sjávarútvegsfyrirtæki sem eru með starfsemi allt árið, eins og á við um Samherja og Útgerðarfélag Akureyringa, standa einfaldlega frammi fyrir því að draga saman seglin með einhverjum hætti. Sjálfsagt eitthvað mismunandi eftir fyrirtækjum, en í mínum huga blasa þessar staðreyndir við. Því miður.“

Verjum störf til sjós og lands

„Útgerð og vinnsla á sjávarafurðum er um margt flókin, aðfangakeðjan er löng og miklu skiptir að hafa fyrirsjáanleika þegar verið er að manna skip og vinnslur. Hið sama gildir um alþjóðleg viðskiptasambönd þar er samkeppni er hörð og á köflum óvægin. Þetta er ekki eins og að reka skrifstofu og leysa vandamálið með því að loka eftir á hádegi á föstudögum. Hlutverk okkar er að verja störfin, bæði til sjós og lands. Þar eru púslin mörg,“ segir Hákon Þröstur Guðmundsson á útgerðarsviði Samherja.

Samdrátturinn

Á vef Samherja er athygli vakin á eftirfarandi:

  • Veiðiheimildir félaganna í þorski á yfirstandandi fiskveiðiári eru samtals 16.407 tonn en voru 17.518 tonn á síðasta fiskveiðiári. Samdrátturinn er 1.111 tonn, eða 6,3%.
  • Verulegur samdráttur er í gullkarfa. Þar eru veiðiheimildir félaganna á þessu fiskveiðiári 2.055 tonn og skerðast um 540 tonn, eða um 21%. Skerðingin í djúpkarfa er svipuð, hlutfallslega. Veiðiheimildir þar eru samtals 612 tonn og skerðast um 153 tonn, eða 20%.
  • Veiðiheimildir í ufsa skerðast sömuleiðis. Á þessu fiskveiðiári eru heimildir félaganna í ufsa nærri 2.900 tonn en skerðast um 253 tonn frá síðasta fiskveiðiári, eða um 8,1%.
  • Á móti kemur að veiðiheimildir í ýsu aukast og grálúðan stendur í stað. Veiðiheimildir félaganna í ýsu eru nú samtals 2.610 tonn en voru á síðasta fiskveiðiári 1.777 tonn. Aukningin er 833 tonn, eða sem nemur um 47%.
  • Samtals er skerðing veiðiheimilda Útgerðarfélags Akureyringa og Samherja á yfirstandi fiskveiðiári í ofangreindum tegundum rúm 1.220 tonn miðað við síðasta fiskveiðiár.