Fara í efni
Fréttir

Segir Alicante og Düsseldorf frábæra kosti

Niceair hefur beint flug frá Akureyri til Alicante á Spáni og Düsseldorf í Þýskalandi næsta vor eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag.

„Við erum að bjóða nýjan áfangastað í sólina frá Akureyri, en við munum gera hlé á flugi til Tenerife á sama tíma,“ segir Helgi Eysteinsson sölu- og markaðsstjóri Niceair um flugið til Alicante, frá 11. apríl til 6. maí.

„Alicante er mjög góð gátt inn í suður Spán þar sem Torrevieja, Benidorm og Valencia eru öll skammt frá,“ segir Helgi. „Við viljum meta hvernig viðtökurnar verða, en hvað sem öllu líður stefnum við að því að vera með vikulegt flug til sólarlanda frá Akureyri allan ársins hring. Hvort það verður Alicante áfram eða einhver annar staður verður metið út frá viðbrögðunum,“ segir hann við Akureyri.net.

Helgi segir að viðbrögð við tilkynningunni um flug til Alicante séu góð. „Fólk er strax byrjað að bóka sig þangað svo við erum mjög ánægð.“

Flugið til Düsseldorf er fyrst og fremst hugsað til þess að koma til móts við erlenda markaðinn, segir Helgi. Þjóðverjar hafa lengi verið miklir Íslandsvinir og duglegar að ferðast hingað til lands, „en við treystum því auðvitað að  fá stuðning við flugið til Düsseldorf frá innlenda markaðnum,“ segir hann.

„Düsseldorf býður í senn frábæra tengimöguleika um allan heim og stutt er til Luxemborgar, Belgíu og Hollands, auk þess sem Köln og Düsseldorf eru fallegar miðaldaborgir og vinsælir áfangastaðir. Þá liggur Düsseldorf í hjarta Rheinland-Westfalen, sem er stórt upptökusvæði fyrir Íslandsfara frá Þýskalandi,“ segir Helgi.

Niceair hóf flug til Danmerkur og Spánar frá Akureyri í byrjun júní á þessu ári. Sætanýting hefur verið um 73% frá upphafi, að því er segir í tilkynningunni, og „reksturinn gengið umfram væntingar.“