Fara í efni
Fréttir

Samstarf sem þetta ekki á vetur setjandi

Samstarf sem þetta ekki á vetur setjandi

Sindri Kristjánsson, sem var í 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í bæjarstjórnarkosningunum á dögunum, segir fulltrúa flokksins fljótt hafa fundið í viðræðum við Framsókn, Sjálfstæðisflokk og Miðflokk, að mikið væri á milli og slíkt samstarf því „ekki á vetur setjandi,“ eins og hann orðar það í færslu á Facebook. Samfylkingin sleit í dag viðræðum við umrædda flokka um meirihlutasamstarf í bæjarstjórn.

„Það hefur verið áhugavert og afar skemmtilegt að stíga mín fyrstu skref á pólitíkinni hér í bænum okkar og ræða við íbúa um mín hugðarefni og hjartans mál til að gera Akureyri að betri stað fyrir okkur öll. Í hreinskilni sagt voru úrslit kosninganna um daginn ekki í takt við væntingar okkar jafnaðarmanna. En svo fór sem fór og ekkert annað að í stöðunni en að standa upp aftur, dusta af sér rykið og halda áfram,“ segir Sindri í færslu á Facebook.

„Þegar þrír stærstu flokkarnir slitu viðræðum fyrir um viku síðan var okkur í Samfylkingunni boðið að borðinu. Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Miðflokkur óskuðu eftir því að ræða við okkur um mögulegt samstarf. Það er að mínu mati ókurteisi og ástæðulaust að hafna pólitískum viðræðum við andstæða póla stjórnmálum. Því fórum við af heilindum inn í samræðurnar en vissum alla tíð að við ramman reip væri að draga. Við fundum það fljótt í þessum samræðum að of mikið væri á milli og því samstarf sem þetta ekki á vetur setjandi,“ segir hann.

„Bæjarpólítíkin í mínum huga snýst um málefni og einlægan vilja til að gera bæinn okkar að enn betri stað til að búa á, fyrir okkur öll, óháð efnahag eða öðrum aðstæðum. Það er heldur ekki tilviljun hvers vegna ég fann minn pólitíska samastað í Samfylkingunni fyrir mörgum árum síðan. Stefna jafnaðarmanna og sósíaldemókrata byggir á ákveðnum grunngildum sem ég get einfaldlega í hjarta mínu ekki fórnað á altari meirihlutasamstarfs og eða valdastóla.

Það skiptir máli fyrir Akureyringa að fólk sem velst til starfa í sveitastjórn gleymi því ekki að málefni og hugsjónir skipta miklu máli; trúnaður okkar er við kjósendur.“