Fara í efni
Fréttir

Sætanýting Niceair 86% fyrstu sex vikurnar

Þrír starfsmanna Niceair á erlendri grundu, Signý Jónsdóttir, Kristján Sigurður Þórsson og Margrét Einarsdóttir.

„Við erum þakklát og hrærð yfir góðum viðtökum og þéttum stuðningi almennings og fyrirtækja á Norður- og Austurlandi. Þetta verkefni hefur verið rannsakað mjög vel og þessar tölur eru umfram það sem við bjuggumst við í fyrstu skrefunum,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair, en tilkynnt var í dag að sætanýting hafi verið 86% fyrstu sex vikur í rekstri félagsins.

Sætanýting var 69% í júní, fyrsta mánuðinn sem Niceair starfaði, „en fyrstu sex vikur í rekstri hefur félagið 86% sætanýtingu. Niceair flýgur áætlunarflug frá Akureyri til Kaupmannahafnar og Tenerife, auk þess sem leiguflug hafa verið áberandi í starfseminni það sem af er sumri. Að baki félaginu eru einstaklingar og fyrirtæki sem eiga það sameiginlegt að vilja standa að baki alþjóðlegum flugsamgöngum milli erlendra borga og Norður- og Austurlands,“ segir í tilkynningiu frá félaginu.

Fjölga ferðum til Tenerife

 „Bókanir inn í veturinn eru jafnframt góðar og ekki annað að sjá en að stuðningur og ferðavilji íbúa svæðisins sé að raungerast. Félagið bætti nýverið við aukaferðum og lengdi ferðatímabilið til Tenerife fram til mars. Næsti vetur verður síðan mælikvarði á erlendu markaðina okkar, en á komandi vikum mun ný vetraráætlun með fleiri áfangastöðum líta dagsins ljós. Við hlökkum mikið til,“ segir Þorvaldur Lúðvík í tilkynningunni.