Fara í efni
Fréttir

Reginn staðfestir ekki orð undirverktakans

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

„Við getum ekki staðfest þetta,“ segir Ragnar Þór Bjarnason, verkefnastjóri hjá Regin, um ummæli Arnórs Páls Júlíussonar, framkvæmdastjóra Þakverks - Þakpappalagna ehf., í frétt á Akureyri.net fyrr í mánuðinum í tengslum við leka sem varð í verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð um áramótin.

Haft var eftir Arnóri Páli að þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar þegar unnið var við þakið í sumar hafi matsmenn á vegum eigenda hússins ekki talið þörf á að skipta út gömlum pvc-dúk á þeim hluta byggingarinnar þar sem lak. Samkvæmt upplýsingum frá Regin hafa starfsmenn fyrirtækisins ekki átt í samskiptum við viðkomandi undirverktaka.

Það sem um ræðir er flatt þak yfir gangi verslunarmiðstöðvarinnar. Tjón af völdum lekans er minniháttar, en strax var farið í að leggja nýjan dúk á þennan hluta þaksins. Ragnar Þór bendir á að eigendur hússins þekki bygginguna vel, viti ástand allra byggingarhluta og séu með viðhaldsáætlun sem farið sé eftir. Lekinn sem kom upp um áramótin hafi komið upp óvænt, gat hafi komið á dúkinn og strax hafi verið brugðist við. 

Þriggja vikna töf á afhendingu

Eins og lesendum er kunnugt standa yfir framkvæmdir við nýja heilsugæslustöð sem að hluta er í nýrri viðbyggingu og að hluta í breyttu húsnæði verslunarmiðstöðvarinnar. Afleiðingar lekans eru að afhending hússins tefst um fáeinar vikur og þar með flutningur heilsugæslustöðvarinnar, en upphaflega hafði áætlaður flutningsdagur verið 28. janúar, eins og fram kom í viðtali við Jón Helga Björnsson, forstjóra HSN, í desember.