Rauðu hjörtun slá í gegn sem minjagripir

Ferðamannavörur með umferðarljósin á Akureyri sem fyrirmynd hafa selst eins og heitar lummur í sumar og erlendir gestir eru duglegir að taka rauðu hjörtun með sér heim í formi segla, lyklakippna eða stutterma bola.
„Túristarnir eru svo hrifnir af umferðarljósunum að ég ákvað að hanna minjagripi með þessum götuvita. Svo sprakk þetta bara í sölu og hefur selst mjög mikið hérna á Akureyri og í Mývatnssveit. Það er svo mikið af skipatúristum sem stoppa kannski lítið á Akureyri en þegar þeir sjá þessa segla til sölu við Mývatn grípa þeir þá með sér. Þetta er algjörlega að slá í gegn,” segir Ragnar Davíð Baldvinsson minjagripaframleiðandi og annar eigandi Mývatns Activity. „Þessi minjagripaframleiðsla er í raun bara viðbót við ferðaþjónustuna okkar í Mývatnssveit þar sem við erum að bjóða upp á hreyfiferðir,“ segir Ragnar. Söluhæsta varan hans þetta sumarið er segull með umferðarljósunum á Akureyri en fyrirtæki hans framleiðir boli, lyklakippur og segla tengda Norðurlandi.
Umferðarljósin á Akureyri á bol í útfærslu Ragnars hjá Mývatns Activity.
Bolir vinsælir hjá Bandaríkjamönnum
Svipaða sögu er að heyra úr Braggaparkinu á Akureyri. Þar hafa ýmsar vörur með umferðarhjörtunum verið framleiddar í sumar en framleiðslan hófst í kjölfar umræðna um að mögulega þyrftu hjörtun úr umferðarljósunum að víkja.
„Þegar fréttir bárust af því að það ætti að taka hjörtun úr umferðarljósunum langaði okkur að leggja í smá varnarbaráttu með því að setja meiri stimpil á þetta fyrir bæinn,“ segir Guðjón Magnússon starfsmaður Braggaparksins. Í Braggaparkinu má nú finna ýmsa minjagripi er tengjast umferðarljósunum eins og boli, límmiða, segla og derhúfur. „Mest hafa þetta verið Bandaríkjamenn sem hafa verið að kaupa bolina en líka nokkrir Íslendingar,“ segir Guðjón.
Myndverk eftir Bryndísi Fanný Halldórsdóttur(t.v) og kort eftir Margréti Sóleyju Matthíasdóttur (t.h). Hvorutveggja fæst í versluninni Kistu á Akureyri.
Vilja vöru sem tengist Akureyri
Bæði Ragnar hjá Mývatns Activity og Guðjón hjá Braggaparkinu telja að aukinn ferðamannastraumur hafi skapað nýjan markað fyrir staðbundnar vörur. „Ferðamenn vilja styrkja eitthvað sem er staðbundið,“ segir Guðjón. „Þeir kunna að meta að varan tengist beint Akureyri og sé ekki eins og allt sem fæst annars staðar á landinu.“ Ragnar tekur undir það: „Fólki finnst þetta hjarta í ljósunum mjög fallegt. Það væri sárt ef það myndi hverfa, þetta er mjög sterkt tákn fyrir Akureyri.“
Braggaparkið við Laufásgötu er með litla minjagripaverslun þar sem hægt er að kaupa þennan bol og fleiri vörur sem þeir framleiða sjálfir.