Fara í efni
Fréttir

Pissað út í horn og á veggi, brotið og bramlað!

Skemmdir hafa ítrekað verið unnar á húsum og innanstokksmunum í Kjarnaskógi í vetur, eins og fram kom á Akureyri.net í morgun. Þar sagði Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, starfsfólk sitt eiginlega alveg búið að fá nóg, og skyldi engan undra.

„Við höldum snyrtingunum opnum allan sólarhringinn, allan ársins hring og væntum einskis í staðinn nema þess að umgengni sé sæmileg og að innanstokksmunir séu nokkurnveginn heilir þegar salernið er yfirgefið,“ sagði Ingólfur þegar Akureyri.net ræddi nánar við hann í morgun.

„Um helgar þegar líða fer á kvöld og alveg fram á rauðamorgun er stöðugur straumur fólks í skóginn, fólks sem er á djamminu og alveg í spreng, og nýtir þjónustu okkar til að létta á sér. Það fólk er að sjálfsögðu jafn velkomið og aðrir gestir skógarins, fylgi þeir áðurnefndum tilmælum sem flestir reyndar gera,“ segir Ingólfur.

Ömurlegt

„Ég hef kynnst mörgum ræstitæknum um ævina. Upp til hópa úrvalsfólk þar á ferð og harðduglegt sem hefur sagt mér ýmsar sögur úr sínu starfi og því dettur mér ekki í hug að kvarta undan því þótt einhverjir pissi framhjá eða slíkum smámunum, hafandi hlustað á þær.

En þegar starfsmenn mínir, sem láta sér þó ekki allt fyrir brjósti brenna, grjótharðir skógarhöggsmenn, rammir að afli og fráleitt klígjugjarnir, eru farnir að veigra sér við að mæta til vinnu og sinna þrifum sem þeir gera þó alla daga, þarf að taka í taumana. Tilfellið er að á þessu næturgöltri heimsækir okkur fólk sem mígur helst ekki nema út í horn, upp á veggi eða þá í ruslafötuna þegar vel tekst til! Ég gæti haldið áfram upptalningu í þessum dúr en hef ekki geð í mér til þess. Að brjóta svo spegilinn, mölva skiptiborðið fyrir ungabörnin, sparka í klósettrúlluhaldarann og beygla hjólastólaslárnar er bara eitthvað sem maður gerir að loknu góðu dagsverki – eða þannig. Best ef hægt er líka að skilja klósettrúlluna eftir ofan í klósettinu, leggja svo snickersið fallega þar ofaná áður en maður þrykkir bjórflösku í gegn um rúðuna á leiðinni út. Fátt er jú betra eyrnakonfekt en hljóðið af nýmuldum glerbrotum undir sóla.“

Þessu verður að linna!

Ingólfur er ekki búinn: „Hluti þessara gesta fer ekki einu sinni inn fyrir hússins dyr – sem er reyndar mjög gott – heldur mæta kannski fjórir saman, þrír vopnaðir myndavélasímum til að taka upp gjörninginn frá öllum sjónarhornum, sá fjórði brýtur svo allar rúður í kofanum áður en hlaupið er burt. Og viti menn, innan stundar drífur að lið sem tekur bara eina mynd af vettvangi og hypjar sig svo. Hver lét það fólk og til hvers í djöflinum er fólk eiginlega að deila þessum andskota?!“

Ingólfi er sannarlega ekki skemmt. „Ég veit að stundum er best að anda rólega og telja upp að tíu áður þegar maður er jafn fúll og ég er núna – en ég kýs að gera það ekki í þetta skipti. Fyrir það fé sem eytt var til rúðuskipta vetrarins gæti ég keypt, ekki einu sinni heldur tvisvar, ungbarnarólurnar sem mig langar að setja upp í Kjarna en get ekki. Svo á starfsfólkið mitt líka annað og betra skilið en að eyða helgidögunum í uppsópun á hlandkysstum glerbrotum. Þessu verður að linna.“

Látum okkur skóginn varða

En hvað telur Ingólfur til ráða? „Við lokum ekki klósettunum, það er ekki í anda Kjarnaskógar. Lögreglan leggur okkur afar gott lið, við höfum aukið eftirlit og bætt við myndavélum, þeim er að þakka að vonandi náum við til flestra sem brutu og brömluðu um páskahelgina. Ekki það að hamingjan sé fólgin í því en þau skemmdarverk verða kærð. Og nei, það voru engir utanbæjarmenn í bænum sem hægt er að kenna um!“

Hann biðlar til fólks sem þykir vænt um Kjarnaskóg – sem eru án efa velflestir bæjarbúar og nærsveitamenn. „Allir þekkja einhvern, einhversstaðar er myndum deilt og öll getum við haft áhrif á samferðafólk. Ég þekki langflesta djammara af góðri hegðun og mér finnst glatað að örfáir með annarlegar hvatir nái að spilla fyrir öllum hinum. Það er ekki einu sinni hægt að kenna Covid um, nógu miklu sem miður fer er nú samt klínt á aumingja veiruna þessa dagana. Ég hvet fólk til að láta sig skóginn varða. Hann kemst ekki burt, undan skemmdarvörgunum. Hann er bara þarna – fyrir okkur!“

Smellið hér til að lesa fyrri fréttina um skemmdarverkin