Fara í efni
Fréttir

Skemmdarvargar á ferð í Kjarnaskógi

Ljósmyndir: Jón Birgir Gunnlaugsson.
Ljósmyndir: Jón Birgir Gunnlaugsson.

Skemmdir voru unnar á salernishúsi í Kjarnaskógi aðfararnótt skírdags og segir framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga að þetta hafi gerst ítrekað í vetur. Starfsfólk sé orðið ansi þreytt á því, en öryggismyndavélar séu á svæðinu, sumir skemmdarvarganna hafi náðst og góðar myndir séu til af þeim sem voru að verki síðast.

Akureyrarbær á tvö salernishús í skóginum og sér um viðhald, en Skógræktarfélagið hefur umsjón með þeim. „Skemmdarverk hafa alla jafna ekki verið vandamál síðustu ár, en þetta hefur ítrekað gerst í vetur,“ segir Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri félagsins, við Akureyri.net.

„Við erum með tvær snyrtingar sem eru öllum opnar, allan sólarhringinn allt árið; á Birkivelli við völundarhúsið, og í Kjarnakoti við gamla bílastæðið. Á báðum stöðum hafa verið brotnar rúður og innanstokksmunir, speglar, klósettrúlluhaldarar og skiptiborð.“

Ingólfur segir að aðkoman sé oft óskemmtileg að morgni um helgar. „Við göngum vaktir þarna um helgar og starfsfólkið mitt er eiginlega alveg búið að fá nóg af þessu, ekki bara vegna skemmda heldur óþrifnaðar líka. Í vetur er það þannig að um helgar er stöðug umferð á nóttunni; fullt af fólki á djamminu sem virðist í spreng. Rétt er þó að taka fram að 99% fólks notar klósettin eins og vera ber en svo eru einhver gengi sem koma gagngert til að skemma og gjarnan er einhver með í för sem tekur viðburðinn upp, væntanlega til að deila!“ segir Ingólfur.

„Við höfum hreinlega rætt um að loka húsunum, en okkur finnst það ekki í anda Kjarnaskógar. Þess í stað höfum við unnið að því að bæta myndavélakerfi og höfum náð til nokkurra sem hafa skemmt hér. Við eigum greinargóðar myndir af þeim sem voru að verki á Birkivelli um helgina – vonandi nær lögregla að hafa upp á þeim,“ sagði Ingólfur Jóhannsson.