Fara í efni
Fréttir

Ólíðandi, ófaglegt og siðlaust framferði, segja kennarar í MA

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kennarafélag Menntaskólans á Akureyri gagnrýnir formann skólanefndar harðlega í áskorun til menntamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, þar sem farið er fram á að ráðherra leysi nefndina frá störfum.

Í áskoruninni, sem Akureyri.net hefur undir höndum, segir að formaður skólanefndar hafi haft samband við ákveðinn aðila, hvatt hann til að sækja um stöðu skólameistara og gefið viðkomandi ádrátt um stuðning nefndarinnar. Viðkomandi hafi hafnað tilboðinu og upplýst ráðuneytið um samtalið.

Í ljósi stöðunnar ákvað ráðherra í dag að skipa sérstaka hæfninefnd utanaðkomandi sérfræðinga til að leggja mat á sömu gögn frá umsækjendum og skólanefndin byggði umsögn sína á.

Áskorunin Kennarafélags Menntaskólans á Akureyri til ráðherra í heild er sem hér segir:

„Kennurum Menntaskólans á Akureyri hafa borist af því fréttir að formaður skólanefndar MA hafi haft samband við ákveðinn aðila, hvatt hann til að sækja um stöðu skólameistara og gefið viðkomandi ádrátt um stuðning nefndarinnar við slíkri umsókn.

Viðkomandi aðili hafnaði slíku tilboði og hefur upplýst ráðuneytið um umrætt samtal.

Ekki þarf að fjölyrða um að svona framferði er með öllu ólíðandi. Það er ófaglegt og siðlaust. Með því er vandaðri stjórnsýslu kastað fyrir róða, rýrð varpað á Menntaskólann á Akureyri og má segja að umsækjendum, sem sóttu um starfið í góðri trú, hafi verið mismunað.

Almennur félagsfundur Kennarafélags MA, haldinn þriðjudaginn 17. maí 2022, harmar þá stöðu sem upp er komin og skorar á ráðherra menntamála að stöðva umsóknarferlið hið snarasta, að auglýsa stöðu skólameistara að nýju og að skipa óháða hæfnisnefnd til að vinna úr umsóknum.

Auk þess skorar fundurinn á ráðherra að leysa núverandi skólanefnd frá störfum, enda er hún rúin trausti, og skipa nýja.

Áskorun samþykkt með 33 greiddum atkvæðum af 35. 1 seðill var auður og 1 ógildur.“

Fyrri fréttir Akureyri.net um málið: