Fara í efni
Fréttir

Vilhelm Þorsteinsson kemur snemma árs

Vilhelm Þorsteinsson í prufusiglingu í vikunni.
Vilhelm Þorsteinsson í prufusiglingu í vikunni.

Nýtt uppsjávarskip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson EA 11, sem er í smíðum hjá Karstensens skipasmíðastöðinni í Skagen í Danmörku, kemur til heimahafnar snemma á nýju ári – vonandi síðari hluta febrúar eða byrjun mars.

Vilhelm fór í fyrstu prufusiglinguna í vikunni og segir Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja, að allt hafi gengið eins og í sögu. Einkum var verið að prófa vél- og skrúfubúnað að sögn Kristjáns.

Afhending skipsins hefur tafist nokkuð frá því sem upphaflega var áætlað, vegna kórónuveirufaraldursins, en vonast er til að það verði tilbúið til veiða á næstu loðnuvertíð. Vilhelm verður búinn bæði til nóta- og flotvörpuveiða og verður burðarmesta skip íslenska uppsjávarflotans. Allur búnaður skipsins verður framúrskarandi bæði er snýr að áhöfninni en einnig veiðum og vinnslu, segir Kristján, enda sé það stefna Samherja að tryggja öryggi og velferð starfsmanna, ekki síður en gæði hráefnisins.

Vilhelm ber rúmlega 3000 tonn af afurðum og leysir af hólmi alnafna sinn, sem kom til nýr til landsins fyrir tæpum tveimur áratugum.

Skrokkur hins nýja Vilhelms var smíðaður í stöð Karstensens í Gdynia í Póllandi. Skipið var sjósett þar í júní, dregið til Skagen og smíðin kláruð þar.